Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 15:12:40 (5893)

1997-05-06 15:12:40# 121. lþ. 117.4 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:12]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans í ræðunni sem hann var að flytja. En ég vil segja að það eru tvö atriði sem mér finnst að þurfi að gaumgæfa betur. Fyrra atriðið er sú viðbót sem kom frá hv. umhvn. og ég rakti áðan á hverju hlyti að byggjast og fæli í sér efasemdir um ágæti eða áreiðanleika varnarvirkja. Hitt atriðið eru breytingar sem eru gerðar á núgildandi lögum þar sem fellt er brott eitt ákvæði þeirra, það ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Eigi húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína er heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var á þeim tíma þegar ofanflóð féll. Sé ákveðið að inna greiðslu af hendi vegna yfirvofandi hættu, án þess að flóð hafi fallið, er við sömu aðstæður heimilt að miða hana við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var við síðustu áramót. Sé brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar, að frádregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis eignarinnar, skal greiðsla miðast við endurstofnverð sem þannig er reiknað.``

Þessi málsgrein í gildandi lögum er felld brott og það er gert í frv. Þannig að það er gert á vettvangi ríkisstjórnarinnar að taka þessa ákvörðun að breyta lögunum að þessu leyti. Í frv. kemur ekki fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna þetta er gert og ég hef ekki fundið hann. Mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á þessari breytingu og fá fram skýringar frá hv. ríkisstjórn hvers vegna þetta er lagt til, hvort svo sé að þau dæmi sem þessi málsgrein á að ná yfir verði leyst með öðrum hætti eða hvort einhver önnur úrræði komi í staðinn fyrir þessa málsgrein. Það má vel vera en ég hef ekki séð þau og mér finnst nauðsynlegt að fá fram skýr svör frá ríkisstjórninni um þetta efni áður en umræðu um þetta mál lýkur. Mér finnst það, virðulegi forseti. Mér finnst að þegar verið er að leggja til breytingu sem að þessu leyti skerðir hagsmuni íbúðareigenda undir vissum kringumstæðum, þá þurfi að liggja skýrt fyrir hvers vegna sú tillaga er gerð og hvaða önnur úrræði koma í staðinn þannig að menn séu ekki verr settir eftir lagabreytinguna en fyrir hana af því að ég ætla ekki að halda því fram né ætla ríkisstjórninni það að þessi tillaga sé gerð í því skyni að rýra stöðu tiltekinna íbúðareigenda. Þess vegna kannski öðru fremur er nauðsynlegt að fá fram skýr svör um þetta atriði.

[15:15]

Í þriðja lagi tel ég líka nauðsynlegt að fá frá ríkisstjórninni skýr svör um hvort hún hyggist grípa til sérstakra aðgerða þar sem snjóflóð hafa þegar fallið án þess að nokkurt manntjón hafi orðið eða neinn skaði annar en á húseignum. Þar hafa menn þá fengið viðvörun um að hættuástand gæti skapast, meiri viðvörun en á öðrum stöðum. Málin eru í þeirri stöðu sem fyrr en greinilega brýnna en áður að hraða varnarvirkjagerð eða ákvörðun um til hvaða ráða skuli gripið. Mér finnast þau svör ekki ásættanleg að menn skuli bara búa áfram í 4--5 ár við sömu óbreyttu skilyrðin sem þegar hefur sannast að geta haft hættu í för með sér.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að verkefnið er mikið sem þarf að ráðast í um land allt og verður ekki unnið nema á nokkuð löngum tíma. Ég geri því ekki athugasemd við það að gerð sé forgangsáætlun á þessum verkefnum og þeim sé síðan stillt upp í því tímaplani og verkefnaplani eftir því sem mönnum þykir skynsamlegt. En mér þykir líka skynsamlegt og eðlilegt að þegar menn fá skýra vísbendingu um að á tilteknum stöðum sé kannski meiri hætta en menn héldu, þá færi menn til og grípi fyrr til aðgerða. Það er ekki ásættanlegt að bjóða fólki upp á þennan biðtíma sem um er að ræða í því tilviki sem ég er með í huga. Mér fundust svör hæstv. ráðherra vera svolítið óskýr um það, en las það helst út úr þeim að í meginatriðum héldi hann sig við þá framkvæmdaáætlun sem drög liggja fyrir um og ég er ekki sammála honum að það sé ásættanleg niðurstaða.

Herra forseti. Ráðherrann vék að því að ég hefði ekki tekið til máls í þessu máli við 2. umr. og það er alveg hárrétt hjá ráðherranum. Það stóð þannig á að ég þurfti að gegna öðrum störfum á sama tíma og þingfundur stóð yfir eins og títt er og varð ekkert við það ráðið. Óskir mínar stóðu til þess að fresta umræðu og var það gert um sinn, en eðlilega er ekki hægt að gera það mjög lengi þannig að það varð samkomulag um að 2. umr. færi fram þótt ég gæti ekki mætt til hennar með þeim rökum að ég gæti eðlilega flutt mitt mál við 3. umr. Til þess eru nú þrjár umræður um mál að menn geti tekið til máls og geri það þegar þörf krefur. Mér finnst það ekkert lakari málflutningur sem kemur fram við 3. umr. máls en við 2. umr. Ég er ekki á þeirri skoðun að 2. umr. máls sé endapunktur hennar og eftir það eigi ekki að vera umræður. En mér finnst hins vegar að hv. umhvn. líti svo á að 3. umr. sé henni óviðkomandi. Ég fæ ekki séð, virðulegi forseti, að hér sé nokkur nefndarmaður úr hv. umhvn. Ég hef látið athuga fyrir mig um formann og varaformann og þeir eru því miður hvorugur á landinu þennan daginn. Mér finnst þetta ekki góður svipur á afgreiðslu mála frá þinginu þegar umhvn. í heilu lagi er í burtu og sérstaklega þegar þeir sem eiga að tala fyrir hönd nefndarinnar eru ekki einu sinni á landinu. Mér finnst því eðlilegt, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til unnt er að fá skýringar frá talsmanni nefndarinnar varðandi þau atriði sem ég hef óskað frekari skýringa á og vísa þar til 10. gr. frv. og eins hvort þeir hafi ekki athugað 7. gr. í núgildandi lögum sem er breytt með þeim hætti sem ég hef rakið. Eins finnst mér líka að sá ráðherra sem flutti málið, sem er upplýst að var hæstv. forsrh., geri grein fyrir því hvers vegna þessi breyting er gerð á uppkaupareglum. Þetta er nefnilega gríðarlega mikilvæg breyting og ef þessi heimild er felld brott án þess að nokkuð annað komi í staðinn er verið að ganga verulega á hlut, ekki gott að segja margra, en það geta verið allmargir íbúðareigendur sem gætu skaðast verulega á þessari breytingu. Mér finnst eðlilegt að menn geri þá grein fyrir því til hlítar áður en hún er endanlega afgreidd frá þinginu af því að ég hef, eins og ég sagði fyrr, gengið út frá því að menn væru ekki að gera þessa breytingu til þess að skaða einstaka íbúðareigendur heldur af einhverjum öðrum ástæðum og á móti hlytu að koma aðrar aðgerðir sem væru jafngildar og vægju upp breytinguna en ég hef ekki séð hverjar eru. Það hefur ekki verið gerð grein fyrir þeim og mér finnst eðlilegt að kalla eftir því að gerð sé grein fyrir því og fer fram á það við virðulegan forseta að ef ekki tekst að fá skýringar á þeim atriðum sem ég nefndi verði umræðunni frestað þar til þeir sem geta gefið skýringarnar eru mættir til hennar.