Hlutafélög

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 15:29:30 (5896)

1997-05-06 15:29:30# 121. lþ. 117.6 fundur 504. mál: #A hlutafélög# (hlutafélagaskrá) frv., Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:29]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Frv. þetta snýst fyrst og fremst um að flytja skráningu hlutafélaga frá hlutafélagaskrá til Hagstofu Íslands. Málið er ekki ágreiningsmál. Nefndin hefur orðið ásátt um að gera eina brtt. við 9. gr. frv. sem snýr að innheimtu gjalda fyrir aðgang að skránni.

Breytingin er í þá átt að ráðherra Hagstofu Íslands er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skráningu hlutafélaga, þar með talið um skipulag skráningarinnar, rekstur hlutafélagaskrár, aðgang að skránni og gjaldtöku m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem hlutafélagaskrá hefur á tölvutæku formi.

Meginmarkmiðið með brtt. er að tryggja að gjaldtaka af þeim aðilum sem óska eftir aðgangi að skránni verði fyrst og fremst í samræmi við þann kostnað sem slík upplýsingagjöf hefur í för með sér.