Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:06:22 (5905)

1997-05-06 16:06:22# 121. lþ. 117.30 fundur 526. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tannviðgerðir) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:06]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Efni þessa frv. er að við 1. mgr. 66. gr. skattalaganna bætist nýr töluliður sem hljóði svo, með leyfi forseta: ,,Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna tannviðgerða og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.`` Í 66. gr. skattalaga eru ýmis ákvæði sem heimila skattstjórum að lækka tekjustofna ef gjaldþol skattgreiðanda skerðist verulega, t.d. vegna ellihrörleika, veikinda, slyss eða mannsláts eða ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað, ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu, ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri og ef maður hefur orðið fyrir verulegu eignartjóni sem hann hefur ekki fengið bætt úr hendi annarra aðila. Þetta eru meðal annarra þau ákvæði sem 66. gr. felur í sér og heimilar skattstjóra að lækka tekjustofn viðkomandi ef gjaldþol skattgreiðanda skerðist verulega. En lagt er til að nýtt ákvæði bætist við þessa töluliði sem felur í sér að ef maður hefur veruleg útgjöld vegna tannviðgerða og gjaldþol hans skerðist verulega þá hafi skattstjóri heimild til að lækka tekjustofn viðkomandi.

Hver eru rökin fyrir þessu, virðulegi forseti? Eins og fram kemur í frv. hafa útgjöld heimilanna vegna tannlæknaþjónustu margfaldast á umliðnum árum og þegar yfirlit er skoðað yfir útgjöld heimilanna, hvernig þau hafa þróast frá 1980 til 1995 eða á 15 ára tímabili, þá hafa útgjöld vegna tannlæknaþjónustu rúmlega þrefaldast á því tímabili. Talað hefur verið um að útgjöld heimilanna hafi aukist verulega, t.d. vegna þjónustugjalda í heilbrigðiskerfinu en þegar tölur eru bornar saman um útgjöld heimilanna vegna lyfja og læknisþjónustu kemur í ljós að útgjöld vegna tannlæknaþjónustu hafa aukist miklu mun meira en útgjöld vegna annarrar læknisþjónustu eða lyfjakostnaðar. Það er því ljóst að á 15 ára tímabili hafa útgjöld vegna lyfja og læknishjálpar aukist um 80--90% í heild. Þegar það er brotið niður og útgjöld skoðuð vegna læknisþjónustunnar hafa þau aukist um 77% á þessu tímabili eða úr 401 millj. í 712 millj. Þegar tannlæknaþjónustan ein og sér er skoðuð þá hefur hún aukist úr 479 milljónum í 1.667 milljónir eða um 287%. Þetta sýnir okkur að útgjöld heimilanna hafa, þegar heilbrigðiskerfið er skoðað og hvernig útgjöld heimilanna hafa aukist t.d. vegna aukinna þjónustugjalda, vaxið langmest vegna tannlæknakostnaðar sem ég hygg að sé m.a. vegna breytinga sem gerðar hafa verið á löggjöfinni. Áður var greitt að fullu fyrir börn á grunnskólaaldri en það hefur breyst og nú þurfa foreldrar að taka þátt í útgjöldum vegna barna á grunnskólaaldri. Eins hygg ég að almennt efnahagsástand og þrengingar í þjóðfélaginu sem við höfum búið við hafi orsakað það að tannlækningar hafa frekar verið látnar sitja á hakanum en annað.

Ég vil líka minna á í þessu sambandi að nýlega kom fram hjá landlækni að í könnun sem gerð var hafi yfir 50% þeirra sem spurðir voru, og með tekjur undir 130 þús. kr., sagt að þeir hafi frestað að leita sér tannlæknaþjónustu. Þessi rök eru því mjög veigamikil þegar Alþingi metur hvort eigi að bæta nýjum lið við 66. gr. tekjuskattslaga sem veitir skattívilnun vegna verulegs tannlæknakostnaðar. Við vitum að tannlæknakostnaður getur verið gífurlegur og fyrir mörg heimili geta útgjöld vegna tannlæknakostnaðar skipt tugum og í sumum tilvikum hundruðum þúsunda á ári. Það er því ekki síður að gjaldþol heimilanna skerðist vegna slíkra útgjalda en annarra sem um er getið í 66. gr. skattalaga.

Ég vil í lokin, herra forseti, aðeins hafa nokkur orð um forsögu þessa máls vegna þess að ekki er um að ræða nýtt mál á þingi. Ég hef flutt þetta mál áður, m.a. á 105. löggjafarþingi árið 1982. Þá hlaut málið verulegar undirtektir á Alþingi sem m.a. sýndi sig í því að heilbr.- og trn., sem fékk málið til meðferðar, fjallaði um það og mælti með að frv. yrði samþykkt. Það kom því til 2. umr. í sama búningi og það er nú, eins og ég er að mæla fyrir því, og ljóst var að mikill vilji var fyrir því að afgreiða málið á þingi. Þegar til kastanna kom og átti að fara að afgreiða málið, þá lýsti þáv. heilbrrh. því yfir að hann hefði í hyggju að breyta reglugerð sem var á hans valdi, þ.e. að breyta reglugerð almannatrygginga á þann veg að greidd yrðu 20% af tannlæknakostnaði fyrir alla þá sem áður höfðu fengið greitt úr almannatryggingakerfinu. Ljóst var að þessi yfirlýsing þáv. heilbrrh. hafði þau áhrif að þingmenn töldu að fyrst fara ætti út í svo víðtækar aðgerðir til að lækka tannlæknakostnað heimilanna, þá væri það nægjanlegt og því hafði það áhrif á afstöðu margra þingmanna þannig að þetta frv. sem ég mæli fyrir náði ekki fram að ganga. En málið var langt frá því í höfn þó þessi yfirlýsing þáv. heilbrrh. á árinu 1983 lægi fyrir. Þáv. ráðherra breytti að vísu reglugerð og sú reglugerð átti að taka gildi 1. júní 1983, þ.e. tveimur eða þremur mánuðum síðar, en á þeim tíma, þessum tveimur eða þremur mánuðum, urðu stjórnarskipti og nýr heilbrrh. tók við sem snarlega breytti umræddri reglugerð og felldi hana úr gildi deginum áður en hún átti að taka gildi.

Ég er sannfærð um, virðulegi forseti, að hefði þetta frv. náð fram að ganga hefði það haft veruleg áhrif til þess að lækka útgjöld heimilanna vegna tannlæknakostnaðar. Þetta er metið í einstaka tilvikum, herra forseti, og það eru skattstjórarnir sem meta það í hverju tilviki og skattyfirvöld setja reglur þar að lútandi og veit ég ekki betur en að framkvæmdin á 66. gr. hafi verið með þeim hætti varðandi þá liði sem eru í lögum núna að það hafi gengið snurðulaust fyrir sig og má kannski geta þess í lokin að útgjöld vegna 66. gr. skattalaganna, þ.e. frekari lækkun á tekjuskattsstofni vegna þessara ákvæða í 66. gr. skattalaganna, voru um 1.100 milljónir á sl. ári.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég geri mér vonir um að það fái jafngóðar undirtektir og það fékk á Alþingi á árinu 1982 þegar heilbr.- og trn. mælti með samþykkt málsins og það komst til 2. umr. Af hverju gef ég mér það, virðulegi forseti? Meðal annars vegna þess að á þeim tíma þegar sá hljómgrunnur var á hv. Alþingi um að mæla með þessu máli voru útgjöld heimilanna vegna tannlæknakostnaðar ekki nándar nærri eins mikil og þau eru í dag. Þau hafa vaxið verulega, eins og ég sagði áðan, eða rúmlega þrefaldast á 15 ára tímabili. Þess vegna geri ég mér vonir um að þetta frv. fái hljómgrunn á Alþingi og nái fram að ganga. Það skulu vera mín lokaorð um leið og ég óska þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.