Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:18:26 (5907)

1997-05-06 16:18:26# 121. lþ. 117.13 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., Frsm. meiri hluta GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:18]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Meiri hluti utanrmn. hefur á þskj. 1061 skilað nál. um till. til þál. sem tekin hefur verið á dagskrá um fullgildingu samnings um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Meiri hluti nefndarinnar skilar áliti á umræddu þskj. og leggur til að tillagan verði samþykkt.

Nefndin fékk á sinn fund Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhvrn., og sendiherrana Jóhann Sigurjónsson og Sigríði Snævarr til að fjalla um þetta mál.

Hér er um það að ræða að í stað tveggja samninga sem hafa fjallað um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, hins svonefnda Óslóarsamnings og hins svonefnda Parísarsamnings, komi þessi nýi samningur sem kallaður verður OSPAR-samningur og hefur það að markmiði að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins. Auk þess er stefnt að því með hinum nýja samningi að þeirri mengun sem fyrir er í hafinu verði útrýmt.

Um er að ræða málefni sem Íslendingar hafa árum saman átt aðild að. Hér er verið að fella saman tvo alþjóðlega samninga og gera að einum og ég legg til fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar og reyndar nefndarinnar allrar að ríkisstjórninni verði heimilað að fullgilda þennan samning.