Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:20:00 (5908)

1997-05-06 16:20:00# 121. lþ. 117.13 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., Frsm. minni hluta SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:20]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1062 stend ég að nál. minni hluta utanrmn. um fullgildingu samnings um verndun Norðaustur-Atlantshafsins sem er á þessa leið:

,,Minni hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt eins og meiri hlutinn gerir.`` --- Það má segja að hér sé um að ræða nokkuð óvenjulegt minnihlutanefndarálit því að ég er sammála meiri hlutanum. --- ,,Minni hlutinn vill hins vegar vekja athygli á því að hér er ekki tekið á mengun af völdum hernaðarumsvifa sem þó er alvarlegasta umhverfisógn Norðaustur-Atlantshafsins. Þá hefur meiri hlutinn ekki fallist á að afgreiða það þingmál sem mestu gæti skipt í þessu sambandi, þ.e. frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, 130. mál. Minni hlutinn vill koma málinu á dagskrá í tengslum við tillögu um fullgildingu samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins og gefur því út þetta nefndarálit.``

Í framhaldi af þessu ætla ég að rifja það upp, herra forseti, að fyrir þinginu liggur nú, eins og reyndar undanfarin þing, frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja en 1. flm. þess er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, en auk hans eru flutningsmenn að ég hygg úr öllum öðrum stjórnarandstöðuflokkum og hann mun hafa flutt sama eða hliðstætt frv. á síðasta þingi og þá stóðu einnig að því menn úr öðrum stjórnarandstöðuflokkum, þar á meðal Framsfl., sem hefur nú með utanrrn. að gera. Þannig að því er ekki hægt að neita að mjög víðtækur skilningur er á þeim sjónarmiðum sem fram koma í frv. Þess vegna harma ég það að menn skuli ekki treysta sér til að láta þetta mál fá þinglega afgreiðslu. Með þinglegri afgreiðslu á ég við það að málið komi aftur hér inn og verði tekið til umræðu og atkvæðagreiðslu en það sé ekki jarðað í utanrmn. eins og nú er bersýnilega ætlunin að gera og fram kom á þeim fundi utanrmn. sem fjallaði um þann samning sem hér er á dagskrá.

Ástæðan fyrir þeirri afstöðu stjórnarflokkanna --- ég reikna með að formaður utanrmn. tali í umboði þeirra --- er rakin í minnisblaði sem nefndin fékk frá utanrrn. og ég ætla ekki að endurtaka hér. Þar er klifað á hinum gömlu kjarnorkuröksemdum Atlantshafsbandalagsins, kaldastríðsröksemdum sem eru satt að segja ákaflega kunnuglegar en ég hélt að væru ekki í hávegum hafðar nema kannski sem sagnfræði frekar en menn litu á það sem rök í nútímastjórnmálaumræðu.

Ég harma að málum skuli líka vera hagað þannig í þessari virðulegu stofnun að það skuli vera hægt að leggjast á mál á þann hátt sem gert er í utanrmn. Ég hefði talið heppilegra að málið hefði komist hingað inn til eðlilegrar umræðu. Þess vegna gaf ég út þetta nál. minni hlutans til að koma því á framfæri að ég harma þessa lendingu um leið og ég styð að sjálfsögðu þennan mikilvæga samning sem ég tel þó að geri því miður takmarkað gagn meðan hvergi er tekið á þeirri mestu umhverfismengun Norður-Atlantshafsins sem eru hernaðarumsvifin.