Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:24:41 (5910)

1997-05-06 16:24:41# 121. lþ. 117.13 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:24]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við það að orðatiltækið að leggjast á mál sé bannað í þingsköpum þannig að ég leyfði mér að nota það. Ég tel að hv. formaður utanrmn. hafi tekið þátt í því að leggjast á þetta mál sem hér var nefnt áðan, frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Ég tel það slæmt að lagst sé á málið með þessu móti vegna þess að ég hefði talið skynsamlegra að málið hefði komið hingað aftur og hefði fengið þinglega meðferð og fjallað hefði verið eðlilega um það í þessari stofnun þannig að þingheimur hefði getað tekið þátt í umræðum um það og menn hefðu tekist á um það í atkvæðagreiðsu. Ég tel það miklu skynsamlegri lendingu í stórum málum af þessu tagi en að jarða þau í nefnd eða leggjast á þau í nefnd hvaða orðalag sem menn vilja nota í því samhengi.