Samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:26:05 (5911)

1997-05-06 16:26:05# 121. lþ. 117.14 fundur 556. mál: #A samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:26]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Utanrmn. hefur á þskj. 1060 sameinast um nál. þar sem lagt er til að samþykkt verði sú tillaga ríkisstjórnarinnar að fá heimild til að gerast aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun þar sem við sérstaklega alvarlegan vanda er að etja af þeim völdum, sérstaklega í Afríku.

Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund meðal annarra Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhvrn., sem manna best þekkir til þessara mála og í örstuttu nál. leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt og rita allir nefndarmenn nafn sitt undir þá tillögu.

Ég vil gjarnan bæta því við að það kom fram á nefndarfundi um þetta mál að gera mætti ráð fyrir að árlegur kostnaður vegna aðildar Íslands að þessum samningi yrði u.þ.b. 1 millj. kr. fyrir utan hugsanleg frjáls framlög sem kæmu einnig til greina í sérstakan sjóð þessu máli tengdum, en á slík framlög yrði jafnframt litið sem þróunaraðstoð af hálfu Íslands eða annarra þeirra þjóða sem leggja kunna fjármuni í slíkan sjóð.