Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:31:52 (5913)

1997-05-06 16:31:52# 121. lþ. 117.22 fundur 464. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (horfnir menn) frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:31]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, á þskj. 781, sem ég flyt ásamt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, Margréti Frímannsdóttur og Hjálmari Jónssyni.

Frv. er í tveimur greinum. Fyrri grein þess er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Legstaður horfins manns er hluti af lögmætum kirkjugarði og fer eftir ákvæðum 4. gr. um hver sá kirkjugarður er. Óheimilt er að færa lík úr þeim legstað nema innan kirkjugarðs og þá til greftrunar eða brennslu.``

Önnur grein frv. er gildistökugrein sem kveður um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Með frv. fylgir svohljóðandi greinargerð, með leyfi forseta:

,,Í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði er varða lík týndra eða horfinna manna. Þau teljast utan kirkjugarðs og þar með ekki í vígðum reit. Með frumvarpi þessu er lagt til að úr þessu verði bætt og á þann hátt að legstaður horfinna manna teljist hluti af lögmætum kirkjugarði. Aðstandendum er þá sú huggun harmi gegn að líkin hvíla í vígðum reit og unnt verður að koma upp minnismerki um hinn látna innan kirkjugarðs. Finnist lík verður heimilt að færa það til greftrunar eða brennslu innan þess kirkjugarðs sem það liggur í.

Gert er ráð fyrir því að finnist lík horfins manns á landi verði það undantekningarlaust fært til greftrunar, en sé það á hafsbotni verði ekki skylt heldur fari eftir aðstæðum hvort svo verði gert og geti þá legstaður verið áfram vígður reitur þótt fundinn sé.``

Þar með lýkur þessari greinargerð. Við þetta er því að bæta að við undirbúning málsins var haft samráð við fróða menn um þessi málefni, bæði um löggjöf og kirkjuleg málefni svo og við biskupsstofu.

Frv. þetta á sér fordæmi í erlendri löggjöf og vísast þar til norskrar löggjafar sem var sett fyrir nokkrum árum eftir að millilandaskipið Estonia sökk á Eystrasalti.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.