Kaup skólabáts

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:40:19 (5916)

1997-05-06 16:40:19# 121. lþ. 117.17 fundur 310. mál: #A kaup skólabáts# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:40]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil rifja það upp af þessu tilefni að fyrir fáeinum áratugum var hér sjútvrh. sem tók ákvörðun um að kaupa skólabát. Það var ekki skipuð nefnd. Þessi skólabátur var starfræktur um margra ára skeið og gafst mjög vel. Mig minnir að hann hafi heitið Mímir. Sá sjútvrh. sem hér um ræðir hét Lúðvík Jósepsson. Þetta tæki skipti satt að segja mjög miklu máli. Það var starfrækt verulegan hluta ársins hér syðra en var líka að einhverju leyti á Eyjafirði. Þetta skipti miklu máli í sambandi við ungmenni í skólum á Reykjavíkursvæðinu og skólamenn í Reykjavík söknuðu þess mjög að sá bátur var ekki lengur til staðar því svo illa fór að hann sökk. Í framhaldi af því átti ég orðræður við nokkra ráðherra um þetta í síðustu ríkisstjórn. Þeir voru allir þeirrar skoðunar að óþarfi væri fyrir Alþingi að kássast upp á þetta mál af því að grunnskólinn væri málefni sveitarfélaganna og yrði það. Ég minnist þess að það voru ekki síst ýmsir ráðherrar Sjálfstfl. sem beittu þessum ótrúlegu rökum. Þeim mun meiri er fögnuður minn yfir því að menn skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að vera til skólabátur eða með einhverjum öðrum hætti eigi að tryggja að ungt fólk komist á sjó. Það er auðvitað til skammar að það sé ekki þannig. Eðlilegast væri að slíkur bátur eða bátar væru í tengslum við skólakerfið, við Hafrannsóknastofnun og fleiri slíka aðila, og að þetta væri skipulegur þáttur í skólakerfinu. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. á hvern hátt kallað var á álit menntmrn. í sambandi við þetta mál. Mér þykir skipta miklu máli að menntmrn. sé aðili að þessu. Ég mun að sjálfsögðu styðja tillöguna en mér finnst alveg ótrúlegt að skipa þurfi nefnd til að gera þetta. Ég hélt að svona gerðu menn bara án þess að skipa nefndir.