Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:50:45 (5920)

1997-05-06 16:50:45# 121. lþ. 117.25 fundur 518. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:50]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um setningu reglna um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum.

Flm. þessarar tillögu ásamt mér eru Bryndís Hlöðversdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir og Valgerður Sverrisdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja reglur um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum, svo sem hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum. Í reglunum verði m.a. tekið fram hvenær starfsmenn eigi rétt til þess að fá ólaunað leyfi frá störfum, hvernig reikna skuli leyfistímann til starfsaldurs, annarra réttinda og mats á starfshæfni og hver sé réttur starfsmanns til fyrra starfs eftir að leyfi lýkur.``

Virðulegi forseti. Á hverju ári fær nokkur fjöldi ríkisstarfsmanna leyfi frá störfum, ýmist án launa eða að einhverju leyti á launum. Í fyrra tilvikinu er oft um að ræða starfsmenn sem ráða sig tímabundið til starfa, t.d. á vegum alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, en í síðara tilvikinu t.d. fólk sem fær leyfi frá störfum til þess að afla sér framhaldsmenntunar er síðan nýtist því í áframhaldandi störfum fyrir ríkið.

Í tillögunni er lagt er til að reglur verði settar sem kveða á um réttarstöðu starfsmanna og er eðlilegt að um þær reglur verði haft samráð við samtök ríkisstarfsmanna.

Í ljósi tilvika sem upp hafa komið er nauðsynlegt að setja skýrar reglur um hvaða réttindi starfsmenn ávinna sér eða tapa með því að fá launalaus leyfi og hver sé réttur þeirra til þess að taka á ný við fyrra starfi þegar leyfi frá störfum lýkur. Nauðsynlegt er að eyða óvissu sem upp er komin um þetta efni og valdið getur því að hæfir einstaklingar fáist ekki til þess að taka að sér tímabundin störf erlendis. Störf íslenskra starfsmanna á erlendum vettvangi geta verið íslenskum hagsmunum til framdráttar um leið og þeir afla sér verðmætrar þekkingar til áframhaldandi starfa í opinberri þágu.

Mikilvægt er að um þessi leyfi séu skýrar reglur settar þannig að starfsmanni sé kunnugt um rétt sinn áður en hann sækir um slíkt leyfi. Benda má á að í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað frá 1995 er í 4. gr. kveðið á um rétt alþingismanns til leyfis frá opinberu starfi sem hann gegnir þegar hann er kjörinn til Alþingis.

Virðulegi forseti. Við lifum í breytilegum heimi og umhverfi okkar er gjörbreytt frá því sem var fyrir nokkrum áratugum, jafnvel nokkrum árum. Það er svo að hægt er að halda því fram að einstaklingur sé aldrei búinn að ljúka námi. Margir telja jafnvel að í dag þurfi að sækja tvær háskólagráður vegna þess að krafan um breidd í þekkingu er orðin mjög mikil á mörgum sviðum þjóðlífsins. Það er líka miklu meira um það en áður fyrr að fólk sem hefur menntað sig á ákveðnu sviði eða fólk sem hefur í störfum sínum áunnið sér þekkingu vill bæta við sig og sækist eftir því að stunda nám eða að sinna störfum tímabundið erlendis. Það er hægt að nefna stéttir sem hafa af því mikinn hag að vera tímabundið í öðru landi að störfum eða við viðbótarnám. Það má nefna starfsmenn ríkisfjölmiðla. Það má nefna háskólakennara. Og það má nefna yfirmenn í velferðarkerfinu okkar sem dæmi um stéttir sem mikilvægt er að hafi tækifæri til að kynna sér þróun mála á erlendum vettvangi og afla sér reynslu til að koma með heim. Þannig getur verið mjög erfitt að skilja á milli starfs og náms. Að kynna sér reynslu annarra til að nota þá þekkingu til að bæta við sig í störfum heima fyrir er vissulega ígildi náms. Til viðbótar því sem ég hef áður nefnt er auðvitað eðlilegt að vísa til starfsmanna ráðuneytanna. Það er fólk sem oftast fær tækifæri og oftast nýtir sér tækifæri til að starfa tímabundið við verkefni sem síðar nýtast í verkum þeirra heima fyrir.

Ég nefndi í upphafi máls míns að ákveðið tilvik gefi tilefni til þess að reglur séu settar. Þar er ég að vísa til nýlegs dæmis þar sem starfsmaður í ráðuneyti hafði í góðri trú horfið til starfa hjá alþjóðastofnun. Hann hafði ekki ástæðu til að ætla annað en að hann gengi að starfi sínu, eða embætti er réttara að segja, að lokinni þjónustu á erlendri grund. Það reyndist ekki svo. Þegar heim var komið var kominn köttur í ból bjarnar og ekki ætlast til að þessi embættismaður gengi að sínu starfi, sínum stól og sínu skrifborði. Ég tel að þetta hljóti að hafa vakið athygli allra sem fylgdust með og að menn hafi gert sér grein fyrir hversu ranglátt það er að einhver hverfi til starfa erlendis í góðri trú og komi heim og þurfi að sækja rétt sinn til fyrra starfs.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að Íslendingar eigi kost á að taka þátt í störfum sem unnin eru hjá alþjóðastofnunum, t.d. þeim stofnunum sem reknar eru innan þess alþjóðasamstarfs sem við sækjum að vera aðilar að. Þessi störf geta verið íslenskum hagsmunum til framdráttar. Og þegar heim er komið bera þeir starfsmenn, sem þannig hafa aflað sér verðmætrar þekkingar með störfum sínum, þá verðmætu þekkingu inn í íslenska stjórnsýslu. Það er mitt mat að það geti verið mjög erfitt fyrir Ísland ef þessi réttur er á reiki vegna þess að þá mun fólk ekki fást til slíkra starfa.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu. Hún er mjög skýr, hún skýrir sig sjálf. Það vakna ótal viðhorf í brjóstum manna þegar þeir verða vitni að því að eitthvað sem þeir töldu eðlilegt og sjálfsagt er ekki eðlilegt og sjálfsagt og þannig var það í því tilviki sem ég hef hér bent á. Ég tel mjög mikilvægt að settar verði reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum. Ég tel að í þessari stuttu ræðu minni og í grg. með þessari tillögu séu færð skýr rök fyrir því vegna hvers á að setja slíkar reglur. Ég var að vona að ég hefði fengið tækifæri til að mæla fyrir þessari tillögu fyrr og að Alþingi hefði þótt þetta svo sjálfsagt mál sem þyrfti ekki mikið að kanna eða kalla eftir viðhorfum eða umsögnum annarra um þannig að það hefði verið hugsanlegt að fá þessa tillögu samþykkta. Ég er kannski ekki bjartsýn á það héðan af en ég hvet þó til þess að Alþingi skoði þessa tillögu og kanni hvort hún sé ekki nægilega ópólitísk í raun til þess að um hana verði sameinast og hún samþykkt frá þessu þingi í vor.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki komið með tillögu um til hvaða nefndar þessi tillaga til þál. á að fara. Hún varðar ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum og ég fel forseta að kanna það hvort þetta er tillaga sem fer til allshn. eða hvort um hana á að fjalla í annarri nefnd.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.