Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:18:38 (5925)

1997-05-06 17:18:38# 121. lþ. 117.21 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., Frsm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:18]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á ákvæðum laga um fæðingarorlof. Það liggur hér fyrir á þskj. 1042.

Eins og við er að búast þegar um er að ræða jafnyfirgripsmikið og sögulegt mál þurfti nefndin að sjálfsögðu að ráðslaga með þeim mönnum sem teljast hafa besta yfirsýn í þessu máli. Í hópi hinna bestu manna töldust vera Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri og Elín Norðmann, lögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Jafnframt Jóhanna Fleckenstein, Lára Jensdóttir og Unnur Matthíasdóttur sem voru fulltrúar fyrirburamæðra en fulltrúar frá þríburamæðrum voru þær Guðbjörg Gunnarsdóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir, alnöfnur. Jafnframt taldi nefndin rétt af tilefni þessa frv. að fá til samræðu við sig þá Sigurð Svavarsson og Ingólf Gíslason sem sitja í karlanefnd Jafnréttisráðs.

Eftir að hafa farið ítarlega yfir þetta mál, herra forseti, var nefndin einróma sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þskj. Ég ætla að hlaupa aðeins á þessum breytingum, herra forseti. Þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 3. og 7. gr. frv. að þegar barn sem á að ættleiða er sótt til útlanda skuli ættleiðandi foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar í upphafi ferðar. En í frv. eins og það liggur fyrir í sinni upphaflegu gerð er rétturinn einungis takmarkaður við ættleiðandi móður. Þessi breyting er lögð til af hálfu nefndarinnar þar sem sú staða gæti komið upp að ættleiðandi móðir komist ekki til þess að sækja barn sem hún hefur eigi að síður fengið til ættleiðingar, t.d. vegna sjúkleika eða eins og dæmi var nefnt um í nefndinni vegna fötlunar.

Í öðru lagi leggur nefndin til, til samræmis við breytinguna sem ég var að reifa hér undir 1. tölulið, breytingu á 8. gr. frv. sem felur í sér breytt ákvæði 16. gr. laga um almannatryggingar. Þar er lagt til að orðin ,,eða frumættleiðingu`` í f-lið 16. gr. almannatryggingalaganna hrjóti brott. En þess ber að geta að óbreytt felur ákvæðið í sér að ættleiðandi faðir gæti fyrst fengið greidda fæðingardagpeninga eftir að ættleiðandi móðir hefur fengið slíka greiðslu í a.m.k. einn mánuð eftir frumættleiðingu. Þá er líka lögð til orðalagsbreyting á f-lið 8. gr. frv.

Það er rétt að geta þess, herra forseti, að í umræðunni innan nefndarinnar var sérstaklega rætt um hagi mæðra sem fæða fyrirbura og eignast síðan barn eða börn mjög skammt á eftir eða 9--10 mánuðum á eftir. Þá getur komið upp sú staða vegna þess hversu stutt er á milli fæðinga að greiðslur vegna fæðingarorlofs skerðist. Nefndin ræddi þetta, fékk til fundar við sig fulltrúa heilbrrn., og það var niðurstaða nefndarinnar sem kemur fram hér í þessu áliti að mælast til þess að í slíkum tilvikum skerðist greiðslur ekki. Það var, að því er ég veit best, niðurstaðan í samræðu nefndarinnar við þann fulltrúa heilbr.- og trmrn. sem kom til fundar við nefndina að ráðuneytið mundi hlutast til um að viðeigandi reglum yrði breytt til að ná þessu markmiði. Þetta var ein af forsendum þess að svo góð samstaða náðist um álit nefndarinnar á þessu frv.

Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og hún er samþykk þessu áliti. Sigríður Anna Þórðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. En undir þetta skrifa ég, formaður, Siv Friðleifsdóttir, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Guðni Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Margrét Frímannsdóttir.