Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:24:13 (5926)

1997-05-06 17:24:13# 121. lþ. 117.21 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:24]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem hér eru gerðar á lögum um fæðingarorlof eru allar til bóta, eins og við lýstum yfir öll held ég sem tókum til máls þegar frv. var rætt hér í fyrsta skipti, og þær breytingar sem voru gerðar í meðförum heilbr.- og trn. gerðu frv. þó enn betra en það var. Þó svo við hefðum viljað sjá þarna ýmsar aðrar breytingar, eins og t.d. að tekið væri inn eitthvað varðandi fæðingarorlof feðra, þá náðist ekki samstaða um það innan nefndarinnar og talað var um að ef við færum að taka inn fleiri atriði en væru í frv. eins og það kom frá ráðuneytinu eða hæstv. ríkisstjórn þá væri það frekar til þess að tefja málið heldur en hitt. Það voru allir sammála um að það yrðu að koma til ákveðnar leiðréttingar varðandi fyrirburafæðingar og fjölburafæðingar og þess vegna fékk þetta mjög skjóta og góða afgreiðslu innan nefndarinnar.

Það kom fram hér hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ein af forsendunum fyrir því að þessi samstaða náðist í nefndinni var að við endurskoðun á reglugerð um fæðingarorlof yrðu sérstaklega skoðuð tilvik þegar stutt er á milli fæðinga barna, vegna framlengds fæðingarorlofs eða fyrirburafæðinga, að þá verði tekið inn í reglugerðina að fæðingarorlof skerðist ekki. En þannig er það, svo ég taki nú eitt raunverulegt dæmi, að ung kona sem eignaðist barn í febrúar á síðasta ári og eignaðist síðan tvíbura 1. janúar, eða reyndar var það á síðasta degi þess árs sem hún eignaðist tvíburana, hafði verið í fullu fæðingarorlofi eftir fæðingu barns sem fæddist í febrúar. Eftir það fékk hún ekki vinnu og var á atvinnuleysisbótum sem skráð var sem fullur tími og réttur til fæðingarorlofs. En þegar hún síðan fæðir tvíbura sjö vikum fyrir tímann þá vantar 40 stundir upp á að hún nái fullum réttindum til fæðingarorlofs. Þetta munar um 15 þús. kr. á mánuði í greiðslu. Og hún fær sem sagt ekki metna þá vinnu sem er heima og hún innir af hendi í heimahúsi á meðan hún er í fæðingarorlofi þannig að greiðslurnar skerðast við aðra fæðingu. En í reglugerð um fæðingarorlof, sem er undirrituð 16. desember 1987 og hefur líklega ekki verið breytt síðan þá, segir í 23. gr. um atvinnuþátttöku og þá sem eiga rétt á fullum greiðslum fæðingarorlofs og hvað er metið sem atvinnuþátttaka. Það er atvinnuþátttaka maka bænda við landbúnaðarstörf, það er foreldri sem rekur sjálfstæða atvinnustarfsemi eða vinnur við sjálfstæða atvinnustarfsemi án þess að þiggja laun sem launþegi en verður að sanna vinnustundafjöldann, foreldri sem vinnur launuð störf í heimahúsi og þar með er talin til launaðra starfa í heimahúsi gæsla barna, þ.e. foreldri sem tekur að sér að gæta barna fyrir greiðslu í heimahúsi fær það metið sem fulla vinnu. En ef kona eða karl er í fæðingarorlofi heima að sinna sínu barni þá er það hins vegar ekki metið nema í undantekningartilvikum og þá hefur þess verið getið sérstaklega í kjarasamningum eins og t.d. hjá hjúkrunarfræðingum.

Það var full samstaða um það í nefndinni að fara fram á að breyting yrði gerð á þessari reglugerð sem tryggði að þegar foreldri er í fæðingarorlofi sé það metið til vinnustunda og þess vegna þurfi að gera breytingar á þessari reglugerð frá 1987. Það var forsenda þess að svo góð samstaða náðist og minni hluti heilbr.- og trn. skrifar undir þetta nál. án fyrirvara.

Það er auðvitað mjög slæmt, virðulegi forseti, að hæstv. heilbr.- og trmrh. skuli ekki vera á staðnum til þess að hægt sé að fá fram hjá henni hvort hæstv. ráðherra hefur þennan sama skilning og nefndin, að um þetta hafi verið sátt, ekki bara innan nefndarinnar heldur einnig við þá starfsmenn heilbr.- og trmn. sem mættu á fundi heilbr.- og trn.

Ég gat þess hér áðan að við hefðum auðvitað viljað sjá að þarna væru tekin inn einhver ákvæði varðandi fæðingarorlof feðra og ég vil nota tækifærið hér til þess að minna á tillögu sem lögð var fram á fyrstu dögum þingsins sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon flytja um fæðingarorlof feðra. Þar segir, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Alþingi ályktar að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði tryggður sjálfstæður réttur feðra til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns.``

Það hefur nú heldur lítið farið fyrir því í hv. heilbr.- og trn. að tekin hafi verið til umræðu mál sem stjórnarandstaðan hefur flutt hér og reyndar ekkert mál frá stjórnarandstöðunni verið afgreitt frá þeirri ágætu nefnd. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að á kjörtímabilinu skuli tekið upp fæðingarorlof feðra, að vísu mjög takmarkað en samt sem áður spor í rétta átt. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur einnig lýst yfir þessum vilja sínum og gott ef ekki er að finna megi ákvæði þess efnis í stjórnarsáttamála þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna hefði maður nú ætlað að lítil þáltill. þess efnis að feðrum verði tryggt tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns ætti að vera tiltölulega auðvelt mál fyrir hv. Alþingi að samþykkja sem fyrsta skref í þá veru að feður njóti sama réttar og mæður hvað varðar fæðingarorlof. En því miður hefur þessi tillaga fengið heldur litla umfjöllun í þessari ágætu nefnd eins og aðrar tillögur fluttar af stjórnarandstöðunni. Það er auðvitað umhugsunarvert að þegar mál koma hér fram á fyrstu dögum þingsins frá stjórnarandstöðunni, þá skuli það vera þannig að þegar allt útlit er fyrir að u.þ.b. hálfur mánuður sé eftir af starfstíma þingsins, og kannski ekki einu sinni það, sé rétt verið að byrja á að líta á mál frá stjórnarandstöðunni. Og staðreyndin sé sú að ef við viljum fá einhver mál frá stjórnarandstöðunni rædd, þó að það séu góð mál sem jafnvel virðist vera, a.m.k. í orði, samstaða um að leysa og samþykkja og menn viðurkenna að séu brýn, þá sé það þannig að stjórnarandstaðan þurfi nánast að betla um að þau séu tekin á dagskrá, hvað þá að þau séu afgreidd. Þetta eru auðvitað, virðulegi forseti, vinnubrögð sem eru ekki sæmandi þinginu. Þetta er löggjafarsamkoma landsins, þetta er löggjafarþing allra landsmanna. Þetta er ekki löggjafarstarfsemi bundin þeim hópi sem kaus þá tvo flokka sem nú sitja í ríkisstjórn til starfa, heldur allra landsmanna. Þess vegna finnst mér þessi vinnubrögð vera fyrir neðan allar hellur.

Virðulegi forseti. Ég kýs að nefna þetta hér vegna þess að það hefur verið lögð mikil áhersla á það að stjórnarandstaðan mæti til funda í nefndum þingsins og greiði fyrir málum. Það hefur ekki staðið á því a.m.k. í þeim nefndum sem ég sit. Það er þess vegna ósköp eðlileg krafa að það fari tími hjá nefndunum og hjá Alþingi í að ræða þær tillögur sem fram koma frá stjórnarandstöðu jafnt og stjórn.