Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:48:54 (5931)

1997-05-06 17:48:54# 121. lþ. 117.21 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., Frsm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:48]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Eftir að ég hafði hnugginn flutt ræðu mína um brot Framsfl. á kosningaloforðum sínum þá kemur hinn ágæti formaður félmn. hér upp og segist ætla að gera tilraun til að hugga mig. Ég get ekki annað en lýst því yfir að þegar Framsfl. er annars vegar þá er ég óhuggandi.

Ég bar satt að segja allt aðrar vonir til þess flokks þegar hann komst til valda heldur en ég hef séð rætast. En ég tek auðvitað undir það sem hv. þm. segir að það er margt sem bendir til þess að flokkar jafnaðarmanna, hvað sem þeir nú heita í dag, muni með samstöðu sinni og sameiningu flokka og aukinni samvinnu við sameinaða verkalýðshreyfingu takast að ná meiri hluta við næstu þingkosningar. Þá getur vel verið að þetta verði eitt af þeim málum sem okkur tekst að hrinda í framkvæmd. En af því að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir vísaði til spádóma hæstv. félmrh. þá ber ég nokkurn kvíðboga fyrir því. Reynslan hefur nefnilega sýnt að flest af því sem sá ágæti ráðherra hefur spáð fyrir um hefur ekki ræst. Þannig að ég er enn hnuggnari nú en áður.