Innlend metangasframleiðsla

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:58:14 (5934)

1997-05-06 17:58:14# 121. lþ. 117.27 fundur 520. mál: #A innlend metangasframleiðsla# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:58]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um innlenda metangasframleiðslu. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Tillagan gengur út á að gera kleift að nýta metangas frá sorphaugum, og nýta það á bifreiðar eða farartæki sem í dag ganga fyrir olíu eða bensíni og einnig að gera kleift með lækkun aðflutningsgjalda að breyta þeim þannig að þær gætu nýtt metangas í staðinn. Með tillögunni er einnig verið að gera að því skóna að skattar af metangasi verði lækkaðir eða felldir niður þannig að nýting á metangasi geti orðið hagkvæm og samkeppnisfær við aðra brennslugjafa fyrir farartæki.

Það eru ekki mörg tækifæri, herra forseti, til að nýta innlenda ,,mengun`` til að draga úr mengun á öðrum sviðum í þjóðlífinu. Við þekkjum það öll hvernig við höfum séð sorphauga sem hafa verið við hvern þéttbýlisstað landsins, hvernig draslið og umgengnin um þá var hér áður og fyrr þó svo að það hafi batnað mjög á undanförnum árum. Það sem við munum frá þeim sorphaugum er fyrst og fremst umhverfismengun, sjónmengun, og reykur sem steig upp frá þeim þegar sorpinu var brennt.

[18:00]

Það er nýlunda, og var að frumkvæði þeirra forustumanna Sorpu, að farið var að flokka og bagga sorp og ganga frá því eins og um iðnað væri að ræða. Í dag er þannig frá þeim málum gengið hjá Sorpu að haugar sem áður voru kallaðir sorphaugar eru núna iðnaðarsvæði þar sem gengið er frá þeim þannig að hægt er að nýta allt það metangas sem verður til í slíkum haugum og safna því saman í pípum og nýta með þeim hætti sem telst hagkvæmt. Staðreyndin er nefnilega sú að þó svo að við getum sagt að frágangur sorphauga geti verið góður og umhverfisvænn þá verður eigi að síður mikil metangasmengun af þeirri efnabreytingu og niðurbroti sem verður í svona sorphaugum og metangasið sem stígur þarna upp er í rauninni mjög mengandi. Það er til dæmis sagt að einn rúmmetri af metangasi mengi 25 sinnum meira heldur en einn rúmmetri af koltvíoxíði. Þannig að það er mjög mikilvægt að geta nýtt þessa mengun, eða þetta metangas skulum við segja, þannig að það geti jafnvel dregið úr mengun á öðrum sviðum. Það er það sem gerist þegar þetta metangas er nýtt sem orkugjafi að það mengar ekki nema um það bil 35--40% af því sem venjuleg olía mengar, fyrir utan það að metangasið sem slíkt breytist í koltvíoxíð og mengunin af því verður sem sagt mun minni með brennslu á bíla heldur en af venjulegum olíum. Þannig að það er hægt að segja með sanni að við séum að nýta mengunina til þess að minnka mengun.

Umræður um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi hafa verið miklar á undanförnum mánuðum. Sú mengun sem þeim er samfara verður veruleg og eykur þá mengun sem sleppur út í andrúmsloftið hér langt umfram það sem verið hefur áður. Öll sú umræða sem hefur farið fram er að sjálfsögðu nauðsynleg en hún getur að sjálfsögðu að ýmsu leyti skaðað ímynd Íslands sem hreins og ómengaðs lands. Það er nefnilega ljóst að margt af því sem kemur frá slíkri starfsemi er talið vera með þeim hættulegu efnum sem sleppa út í andrúmsloftið eins og þungmálmar, þrávirk efni og önnur slík efni sem koma við þá framleiðslu. Sem dæmi má nefna að þungmálmar komi út í andrúmsloftið frá járnbræðslum en einnig frá útblæstri bíla. Þrávirk efni koma frá pappírsiðnaði og sorpbrennslum en sorpbrennsla eins og hún er t.d. tíðkuð hér í dag hleypir út einhverju magni af díoxíni sem er með hættulegustu efnum sem til eru og mjög hættuleg í andrúmsloftinu og í sjó.

Margt af því sem við erum að tala um í dag að verði í vaxandi mæli getur orðið til þess að ímynd Íslands sem hreins lands gæti beðið skaða af. Ég vil einnig minna á að höfin í kringum Ísland eru mjög hrein. Á ráðstefnu sem ég var á í morgun kom fram að mælingar á lifur í þorski og karfa sýna að PCB-mengun mælist mjög lág miðað við aðra mælingarstaði á norðurslóðum. Kvikasilfur er einnig mjög lágt og ef maður ber þetta saman við t.d. stærri dýr eins og ísbirni, þá er uppsöfnun á þessum efnum mjög mikil í ísbjörnum. Þannig að við hér á landi virðumst hafa sloppið mjög vel og erum með mjög hreina ímynd. Til dæmis kom fram að kadmíum sem mælist í mosa mælist fyrst og fremst hér á landi í mosa uppi á hálendinu, ekki í mosa í kringum þéttbýli eða við stóriðju. Þannig að við höfum mjög góða ímynd og þá ímynd þurfum við að vernda.

Það eru margar leiðir sem má eflaust fara til þess að halda ímyndinni og vernda og minnka útblástur gróðurhúsaefna. Ein af þeim er sú sem við flm. erum að leggja til hér, að nýta þá metangasframleiðslu sem verður til í sorphaugum, nýta hana á bifreiðar sem kannað hefur verið annars staðar í heiminum að er mjög fýsilegur kostur. Þetta er líka ein af þeim leiðum sem við getum farið til þess að sýna fram á að Íslendingar vilji fikra sig áfram í sjálfbærri þróun. Við þurfum það til viðbótar, að mér finnst, við ómengaða náttúru að sýna fram á sjálfbæra þróun sem kemur þá fram í því að nýta það sorp sem til fellur frá heimilum til að framleiða gas sem aftur knýr áfram bifreiðar og þar erum við búnir að ná hringnum saman.

Svíar hafa nýtt þetta þannig sem tilraunaverkefni að í 20 þúsund manna bæjum hafa þeir komið upp slíkri söfnun metangass úr sorphaugum sínum að það hefur dugað sem orkugjafi fyrir öll farartæki í eigu opinberra aðila í þeim byggðarlögum, sem er þá sambærilegt við það að allir strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu, sorpbílar og aðrar opinberar bifreiðar mundu nýta metangas sem orkugjafa. Að sjálfsögðu er það verulegur árangur þegar við lítum á þau vandamál sem eru í kringum þær hraðbrautir og umferðarþungu brautir sem eru hér í Reykjavík og hafa valdið fólki mjög miklum óþægindum eins og komið hefur fram í fréttum. Þannig er þetta ein af þeim leiðum sem má fara til að draga úr þeirri mengun og reyna að uppfylla þá um leið það sem við höfum þegar undirritað, þ.e. alþjóðasamninga um að draga úr eða halda í jafnvægi gróðurhúsalofttegundum sem sleppt er út í andrúmsloftið. Þetta mál, ef nær fram að ganga, getur þannig gert margt af því sem við höfum stefnt að að hluta til mögulegt.

Umhverfisvernd kostar peninga og það er sama með þessa tillögu að hún kostar einhverja peninga ef við lítum á það þeim augum. Auðvitað á kannski ekki endilega að setja verðmiða á umhverfisvernd að þessu leytinu til. Hún er eitt af því sem fylgir manninum og þeirri framleiðslu sem við stundum hér við stóriðju og annars staðar þannig að verðum að mæta henni. Fyrst við getum ekki mætt henni með hreinsun á staðnum þá verðum við að mæta henni með því að upphefja hana með öðrum hætti og virkjun metangassins er sem sagt hluti af því.

Nýtingin kostar þá peninga að ríkið getur ekki, ef nýtingarmöguleikinn á að vera fyrir hendi, innheimt þau gjöld, þá tolla, sem eru til staðar í dag við innflutning á bifreiðum. Tollar og innflutningsgjöld af bifreiðum yrðu því að vera lægri eða fella yrði þau gjöld alfarið niður. Sama má að sjálfsögðu segja um metangasið sem slíkt að það þolir ekki neina tolla eða skatta. Þannig að tillagan er flutt til þess að opna augu manna fyrir því að þessi framleiðsla verður ekki möguleg nema þetta skref í lækkun gjalda sé stigið.

Við flm. teljum það réttlætanlegt á þeim forsendum sem ég hef áður sagt, að við erum að mæta alþjóðlegum kröfum, við erum að mæta kröfum Íslendinga. Og ég lít svo á að Íslendingar séu almennt orðnir mjög umhverfisvænir. Við viljum hafa starfsemi eins og stóriðju og starfsemi sem við þurfum nauðsynlega að stunda hérna umhverfisvæna. Þess vegna held ég að það sé mjög æskilegt að Alþingi sýni það með beinum hætti að vilji sé til að stuðla að því að þetta verði mögulegt. Því er tillaga flutt hér og ég treysti því að hv. alþm. taki henni vel. Ég vil leggja til að lokum að hún verði send til hv. efh.- og viðskn. og til umsagnar hjá hv. umhvn.