Könnun á orsökum búferlaflutninga

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:32:29 (5935)

1997-05-07 13:32:29# 121. lþ. 118.1 fundur 484. mál: #A könnun á orsökum búferlaflutninga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:32]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram till. til þál. um byggðamál þar sem m.a. var lagt til að fram færi ítarleg athugun á orsökun búferlaflutninga á Íslandi en slík athugun hefur ekki verið gerð, a.m.k. ekki athugun sem gæti náð til allra þeirra þátta sem í greinargerð þáltill. var tekið fram að skoða þyrfti. Í umfjöllun um tillöguna í þeirri þingnefnd sem hún fór til var m.a. leitað umsagna forsrn. og í bréfi frá forsrn. var þess getið að fyrir tilhlutan Byggðastofnunar og í samræmi við starfsáætlanir hennar fyrir árið 1996 væri búið að taka ákvörðun um að hefja slíka könnun á orsökum búferlaflutninga á Íslandi.

Nú er liðið rúmt ár frá því að þessi ákvörðun var tekin og mætti því ætla að niðurstöður af þessari könnun, sem er vissulega tímabær og þörf, ættu að fara að liggja fyrir. Því hef ég leyft mér að beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. sem hljóðar svo:

1. Hvernig miðar könnun á orsökum búferlaflutninga á Íslandi sem samþykkt var að fram færi í starfsáætlun Byggðastofnunar fyrir árið 1996 og hvenær er niðurstaðna að vænta?

2. Hverjir hafa staðið að könnuninni og hvernig er að henni staðið?

3. Hvað er leitast við að kanna og um hvað er spurt?

4. Verði niðurstaða fengin fyrir lok yfirstandandi þings, mun forsrh. þá gera Alþingi grein fyrir efni könnunarinnar og helstu niðurstöðum hennar?