Könnun á orsökum búferlaflutninga

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:37:16 (5937)

1997-05-07 13:37:16# 121. lþ. 118.1 fundur 484. mál: #A könnun á orsökum búferlaflutninga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:37]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Það er ljóst að fyrstu niðurstöður sem þegar hafa fengist úr þeirri könnun sem hér er til umræðu, eru mjög athyglisverðar og varpa á margan hátt nýju ljósi á ástæður búferlaflutninga í landinu. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið fyrir okkur sem erum að reyna að vinna að því að móta byggðastefnu í landinu, þá á ég auðvitað við Alþingi, að við skiljum það og vitum hverjar ástæðurnar eru fyrir þessum búferlaflutningi. Það sem stendur upp úr þeirri könnun sem þegar hefur verið birt eða þeim bráðabirgðaniðurstöðum sem hæstv. forsrh. greindi frá er það að ástæður búseturöskunar eru bersýnilega mjög mismunandi milli einstakra landshluta. Það sem á við á einum stað á alls ekki við á öðrum stað. Það sem ég held að sé þess vegna þýðingarmest fyrir okkur og skipti auðvitað mestu máli er hvernig við hyggjumst síðan vinna þetta áfram, hvaða ályktanir við drögum af þessu því það er alveg greinilegt að á þeim upplýsingum sem þarna eru að birtast getum við byggt framtíðarstefnumótun okkar og tekið á einstökum þáttum sem greinilega eru þess valdandi að fólk kýs að flytja búferlum úr heimahögum sínum.