Könnun á orsökum búferlaflutninga

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:39:46 (5939)

1997-05-07 13:39:46# 121. lþ. 118.1 fundur 484. mál: #A könnun á orsökum búferlaflutninga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin, en það er nokkuð umhugsunarvert að allt síðan á þriðja áratugnum hafa stjórnvöld á Íslandi, Alþingi og ríkisstjórnir, barist með ýmsum hætti gegn búferlaflutningum. Ég ætla ekki að ræða með hvaða hætti, enda gefst ekki tími til þess, en nú upp á síðkastið hafa menn valið m.a. þá aðferð að reyna að beita sérstökum fyrirgreiðslum bæði Byggðastofnunar og annarra aðila við atvinnulífið. En þrátt fyrir það að mönnum hafi ekki tekist ætlunarverk sitt í alla þessa áratugi og þrátt fyrir það að miklu af þeim peningum sem settir hafa verið í þetta verkefni hefur auðsjáanlega verið kastað á glæ, þá er þetta í fyrsta skipti sem leitað er eftir því af hálfu stjórnvalda á Íslandi að finna ástæðurnar fyrir því að fólkið flytur. Eftir öll þessi ár og eftir alla þá fjármuni sem búið er að verja í þessu skyni er nú loksins við lok þessarar aldar, eftir 80 ára sögu afskipta stjórnvalda af byggðaþróun, reynt að leita ástæðnanna.

Ég er sammála þeim sem hér hafa talað. Ég held að niðurstöður úr þeirri athugun sem verið er að gera á ástæðum búferlaflutninga muni verða mjög athyglisverðar og koma mönnum á óvart og leiða mönnum fyrir sjónir að það sé ýmislegt annað en skortur á fyrirgreiðslu, lánsfjárfyrirgreiðslu eða einhvers konar fjárhagsfyrirgreiðslu sem veldur því að fólk flytur búferlum, og ekki bara milli strjálbýlis og þéttbýlis, heldur einnig innan dreifbýlisstaðanna. Nauðsynin til þess að geta tekið á þeim málum með æskilegum hætti og stuðlað að eðlilegu jafnvægi í byggð landsins er náttúrlegra, herra forseti, að menn hafi þessar upplýsingar.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér.