Könnun á orsökum búferlaflutninga

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:42:11 (5940)

1997-05-07 13:42:11# 121. lþ. 118.1 fundur 484. mál: #A könnun á orsökum búferlaflutninga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er sammála því sem kom fram hjá málshefjanda áðan. Um byggðamálin hefur margt verið rætt. Ég minnist þess að fyrirrennari minn í því starfi sem ég gegni um þessar mundir lýsti því yfir einmitt hér á þinginu að byggðastefna undanfarandi ára hefði brugðist og það var auðvitað töluvert áfall fyrir alla vegna þess að ég tel að það hafi verið nokkuð bærileg sátt um það í þinginu á hverjum tíma að það væri verjanlegt og jafnvel æskilegt að stjórnvöld leituðust við að tryggja að byggðaröskun yrði a.m.k. ekki of hröð.

Auðvitað gætum við velt fyrir okkur hvað hefði gerst ef menn hefðu ekki reynt að spyrna við fæti og reynt að hafa í frammi margvíslegar aðgerðir sem kannski hafa ekki dugað sem skyldi en hafa þó væntanlega skilað einhverjum árangri þegar allt er saman dregið. Og ég tel það vera mjög gott og tek undir með málshefjanda að menn skuli með þessum fræðilega hætti leitast við að afla upplýsinga sem hægt er að byggja á næstu ákvarðanir í málaflokki þessum sem er svo mikilvægur.