Samræming á starfsemi og framkvæmdum ríkisins

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:43:46 (5941)

1997-05-07 13:43:46# 121. lþ. 118.2 fundur 586. mál: #A samræming á starfsemi og framkvæmdum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 1005 fyrirspurn til forsrh. um samræmingu á starfsemi og framkvæmdum ríkisins. Fyrir réttum þremur árum samþykkti Alþingi samhljóða ályktun um stefnumótandi byggðaáætlun sem hæstv. forsrh. hafði flutt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Í ályktuninni er kveðið á um að meginmarkmið byggðastefnu séu að treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti, að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímasamfélags og að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.

Til þess að ná þessum markmiðum ályktaði Alþingi að til ársloka 1997 yrði lögð áhersla á fjögur stefnumál: Eflingu samfelldra atvinnu- og þjónustusvæða, valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga, nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi og að starfsemi og framkvæmdir ríkisins yrðu samræmdar og er hér spurt um þann þátt málsins. Ályktað er að samræma eigi starfsemi og framkvæmdir ríkisins og með því er reynt að forðast tilviljanakenndar ákvarðanir. Til þess eigi m.a. að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Taka upp samræmd vinnubrögð við ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og fyrirkomulag þjónustu. Samræma skuli langtímamarkmið ráðuneyta og stofnana ríkisins. Forsrn. annist samræmingu og beiti sér fyrir að ný vinnubrögð verði tekin upp. Gera fjögurra ára áætlanir um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma og að forsrh. skipi nefnd til að endurskoða lagaákvæði um áætlunargerð á vegum ríkisins í þeim tilgangi að vinnubrögð verði markvissari og fjármunir nýtist betur.

Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis er borin fram eftirfarandi fyrirspurn á þskj. 1005, um samræmingu á starfsemi og framkvæmdum ríkisins:

Hvað líður því að framfylgja þeirri stefnu Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun að starfsemi og framkvæmdir ríkisins verði samræmdar og með því reynt að forðast tilviljunarkenndar ákvarðanir?

Hvað líður:

a. samræmingu langtímamarkmiða ráðuneyta og stofnana ríkisins,

b. gerð fjögurra ára áætlana um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma,

c. skipan nefndar til að endurskoða lagaákvæði um áætlanagerð á vegum ríkisins í þeim tilgangi að vinnubrögð verði markvissari og fjármunir nýtist betur?