Stefnumótandi byggðaáætlun

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:53:47 (5945)

1997-05-07 13:53:47# 121. lþ. 118.3 fundur 587. mál: #A stefnumótandi byggðaáætlun# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 1006 flyt ég fyrirspurn til forsrh. um stefnumótandi byggðaáætlun. Fyrir réttum þremur árum samþykkti Alþingi samhljóða ályktun um stefnumótandi byggðaáætlun sem forsrh. hafði flutt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Í ályktuninni er kveðið á um að meginmarkmið byggðastefnu séu að treysta byggðina þannig að gæði lands og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmnum hætti, að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímasamfélags og að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.

Til þess að ná þessum markmiðum ályktaði Alþingi að til ársloka 1997 yrði lögð áhersla á fjögur stefnumál: Eflingu samfelldra atvinnu- og þjónustusvæða, að starfsemi og framkvæmdir ríkisins yrðu samræmdar, valddreifing frá ríki til sveitarfélaga og nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Í kaflanum um valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga er lögð áhersla á að opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Enn fremur að komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.

Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis er borin fram eftirfarandi fyrirspurn á þskj. 1006 um stefnumótandi byggðaáætlun:

1. Hvernig hefur gengið að framfylgja því meginmarkmiði stefnumótandi byggðaáætlunar, sem samþykkt var á Alþingi í maí 1994, að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins, til hvaða aðgerða hefur verið gripið í því skyni og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?

2. Hvernig hefur miðað þeim aðgerðum sem samþykktar voru í stefnumótandi byggðaáætlun til að auka opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana á landsbyggðinni og draga að sama skapi úr sömu þjónustu og starfsemi á höfuðborgarsvæðinu? Hvernig hefur gengið að koma á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt?