Stefnumótandi byggðaáætlun

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:01:22 (5947)

1997-05-07 14:01:22# 121. lþ. 118.3 fundur 587. mál: #A stefnumótandi byggðaáætlun# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil færa hæstv. forsrh. þakkir fyrir svör hans, en ég vil þó segja að þau hafa fyrst og fremst dregið fram að ríkisstjórnin hefur á umliðnum þremur árum frá því að þessi ályktun var samþykkt aðhafst ákaflega lítið til að framfylgja þeim markmiðum sem Alþingi setti sér og samkvæmt þeim stefnumiðum sem tiltekin eru til að ná þeim markmiðum.

Meginniðurstaðan eftir upplýsingar hæstv. forsrh. er að á sá tími sem liðinn er hafi einkennst að aðgerðarleysi ríkisvaldsins til þess að efna ályktun Alþingis enda kom það fram réttilega hjá hæstv. forsrh. að það markmið að sporna við frekari fólksflutningum milli svæða innan lands en þá voru orðnir hefur ekki tekist heldur hafa þeir miklu fremur aukist. Það er því niðurstaðan, herra forseti, eftir að hafa heyrt svör hæstv. ráðherra og lýsinguna á ástandinu eins og það er núna eftir að ályktun Alþingis hefur verið í gildi í þrjú ár að sú byggðastefna sem Alþingi samþykkti fyrir réttum þremur árum hefur brugðist. Það er ekki hægt að fella dóm yfir ályktunarefninu sjálfu að það sé ekki fullnægjandi, heldur fyrst og fremst að framkvæmdarvaldið, sem á að sjá um að framkvæma stefnu Alþingis, hefur ekki uppfyllt þær kvaðir sem á það er lagt í þessari ályktun. Því má draga saman reynsluna af núverandi ríkisstjórn og þeirri næstu á undan henni í þeim orðum að byggðastefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur brugðist.