Danskar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:26:55 (5960)

1997-05-07 14:26:55# 121. lþ. 118.6 fundur 456. mál: #A danskar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Svar mitt við fyrsta lið fyrirspurnarinnar er svohljóðadi: Við undirbúning og frágang samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var lögð á það rík áhersla af þáv. ríkisstjórn Íslands, sem hv. fyrirspyrjandi átti sæti í, að strangar reglur um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna er varða innflutning á lifandi dýrum og tilteknum landbúnaðarafurðum til Íslands séu nauðsynlegar. Í samræmi við þessa afstöðu voru síðan lögfest ákvæði vorið 1995 vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni er vörðuðu heilbrigði dýra og hollustu landbúnaðarafurða. Það var gert með þeim hætti að landbrh. er heimilað að leyfa innflutning þessara vara að fengnum meðmælum yfirdýralæknis og orðrétt úr lögunum, með leyfi forseta: ,,enda þykir sannað að ekki berist með þeim smitefni er valda dýrasjúkdómum.`` Og síðar: ,,Landbúnaðarráðherra er einnig heimilt að banna innflutning á afurðum dýra og plantna sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu eða kunna að fela í sér leifar lyfja og annarra aðskotaefna umfram það sem leyft er við landbúnaðarframleiðslu hér á landi og geta verið hættuleg heilsu manna.``

Við framkvæmd samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina hefur landbrn. sett almennar reglur með reglugerðum og auglýsingum. Þær eru hafðar sem skýrastar um hvað sé heimilt að flytja inn af landbúnaðarvörum, hvaða reglur gilda um innflutninginn, svo sem er varðar heilbrigðiskröfur og vottorð með innflutningnum, svo og frá hvaða löndum innflutningurinn er tvímælalaus heimill. Þær ákvarðanir hafa verið teknar að undangenginni ítarlegri athugun yfirdýralæknis á dýrasjúkdómum og notkun vaxtaraukandi lyfja í viðkomandi landi.

Ísland er í hópi þeirra landa sem hafa haft strangt aðhald við notkun vaxtaraukandi efna til búvöruframleiðslu. Þar af leiðandi hefur innflutningur verið leyfður frá ríkjum sem framfylgja sömu reglum og við. Það er stefna stjórnvalda að nýta heimildir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til hins ýtrasta en þau munu hér eftir sem hingað til haga framkvæmd þessara mála samkvæmt samningsskuldbindingum stofnunarinnar.

Viðræður standa yfir við Dani eða danska sendiherrann hér á landi og nauðsynlegar kannanir verða gerðar til að skilgreina hvort danskar sláturafurðir uppfylli íslenskar heilbrigðiskröfur. Ef sýnt verður fram á að danskar kjötafurðir séu framleiddar án vaxtaraukandi efna og séu lausar við smitsjúkdóma þá munu íslensk stjórnvöld ekki standa gegn þeim innflutningi.

Rétt er að minna á vegna fyrirspurnarinnar að innflutningur til annarra ríkja, þar á meðal til ESB-ríkjanna, er takmarkaður. Ekki er leyfilegt að flytja inn til ESB landbúnaðarafurðir, unnar sem óunnar, nema frá þeim afurða- og vinnslustöðvum sem ESB hefur viðurkennt. Nærtækasta dæmið er bann ESB-ríkja við að flytja inn þorramat og jólahangikjöt til Íslendinga búsettra á svæðinu til eigin neyslu. Í löndum ESB er öllum gert skylt að lúta ströngustu reglum ESB um útbúnað og aðstöðu til vinnslu afurðanna jafnvel þó að um vörur til eigin neyslu sé að ræða. Þar er gengið skrefinu lenra en við höfum gert því að hér á landi er innflutningur til eigin nota ekki háður sömu skilmálum um notkun vaxtaraukandi efna og vara sem ætluð eru til markaðsetningar.

Svar við annarri spurningu er svohljóðandi: Lagst hefur verið gegn innflutningi á ákveðnum landbúnaðarafurðum vegna hættu á að með þeim geti borist hingað til lands smitefni sem ekki hefur fundist í íslenskum afurðum eða hafi ónæmi gegn fúkkalyfjum. Innflutningur er bannaður frá Danmörku á hráu svínakjöti þar sem talið er að smitefni sjúkdómsins bláeyra, sem skammstafaður er PRRS, gæti borist á þann hátt til landsins. Þessi sjúkdómur kom upp fyrir nokkrum árum í Evrópu og barst þá til Danmerkur og hefur breiðst þar út og valdið miklum búsifjum í svínabúskap þar í landi samanber nýlegar fréttir í fjölmiðlum þar um erfiðleika við að glíma við þann alvarlega sjúkdóm. Ekki hefur enn tekist að stöðva útbreiðslu hans í Danmörku. Þessi sjúkdómur finnst ekki hér á landi, ekki heldur í Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi þaðan sem innflutningur á hráu svínakjöti hefur verið leyfður.

Notkun fúkkalyfja í fóður getur verið hættuleg heilsu manna og dýra hafi myndast ónæmi gegn fúkkalyfi þegar það á að nota gegn sjúkdómum í mönnum og dýrum. Hér á landi hefur stefnan verið að halda niðri notkun fúkkalyfja eftir mætti til að forðast margar aukaverkanir sem sífellt eru að koma í ljós erlendis þar sem reglur eru rýmri um notkun vaxtaraukandi lyfja í fóður.

Svar við seinustu spurningu, hæstv. forseti, er svohljóðandi: Með því að takmarka innflutning er bæði verið að gæta varúðar gagnvart dýrasjúkdómum og innflutningi matvæla sem eru framleidd með hjálp lyfja eða vaxtaraukandi efna. Öðru máli gegnir þegar Íslendingar heimsækja önnur þjóðlönd. Stundum er fólk reiðubúið til að taka allmikla áhættu með því að neyta vara sem eru mismunandi að gæðum og framleiddar í öðru umhverfi en við búum við á Norðurlöndum. Óþarft ætti að vera að minna á ýmsar nauðsynlegar varúðarráðstafanir ferðafólks varðandi mat og drykk sem Íslendingar verða að viðhafa á ferðalögum til annarra landa. Að sömu hollustuvernd skuli ekki vera viðhaldið annars staðar þýðir þó ekki að íslenskum stjórnvöldum beri að slaka á kröfu innan lands. Því verður að treysta að hver einstaklingur beri heilsu sína í huga við hvers kyns neyslu hvar sem hann kann að vera staddur.

Til viðbótar þessu langar mig, hæstv. forseti, aðeins að nefna að nú er ágreiningsefni uppi milli ESB og Bandaríkjanna um innflutning á kjúklingum til Evrópusambandsins þar sem Evrópusambandið hefur algerlega bannað þann innflutning af heilbrigðisástæðum og hygg ég þó að þar skeyti þeir litlu um hvort amerískir neytendur fái að borða þá kjúklinga. Þeir telja ekki ásættanlegt að flytja kjúklinga til Evrópusambandsins þannig að fleiri búa nú við vinnubrögð svipuð þeim sem við erum að reyna að viðhafa hér til að halda hollustuháttum okkar og heilbrigði dýra og manna með eðlilegum hætti.