Danskar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:34:10 (5963)

1997-05-07 14:34:10# 121. lþ. 118.6 fundur 456. mál: #A danskar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið þá fyrirspurn sem hér var borin fram mjög alvarlega. Ég hef lagt mikla vinnu í að svara henni samviskusamlega eins og ég tel mig hafa gert, þar með einnig þessu ákvæði sem hv. fyrirspyrjandi áréttaði um það hvort ég teldi að þær vinnuaðferðir sem við hefðum viðhaft standist GATT-samninginn og þau ákvæði sem við höfum undirgengist í sambandi við Alþjóðaviðskiptastofnunina og hvort þau séu í samræmi við þau lög sem við höfum sett varðandi þessi mál og framkvæmd þeirra hér á landi. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður um það mál og þarf ekki að gera það í mörgum orðum. En ég tel að við höfum staðið þar eðlilega að framkvæmd.

Við skoðum auðvitað, eins og ég nefndi líka, þau atvik sem kunna að vera sérstaklega athugunarverð og í gangi eru viðræður við danska sendiráðið hér á landi með þátttöku utanrrn. um að gætt sé að öllum þáttum í því efni, og rétt og eðlilega sé staðið að málum og að við séum ekki að brjóta þá samninga sem við höfum gert. Ég vil bara nefna það til vitnis um að við viljum auðvitað gæta okkar í þeim innflutningi og teljum að full ástæða sé til þess. Ég hef lýst því yfir áður úr þessum ræðustól og ég mun halda áfram að gera það meðan ég er í embætti landbrh. því að ég tel að m.a. í Danmörku hafi menn orðið fyrir þeim áföllum og búsifjum af búfjársjúkdómum, sem ég tíundaði sérstaklega í svari mínu áðan, að full ástæða sé til að gæta fyllstu varúðar í þessu efni og vitna þá kannski aftur til þess --- þó að hv. fyrirspyrjandi segi að enn annað gildi kannski í Evrópulöndunum eða hjá Evrópusambandinu en gildir hér hjá okkur, --- að Evrópusambandið hefur (Forseti hringir.) lagt í mikið stríð við Bandaríkjamenn og er það þó ekki út af framleiðsluvörunum heldur út af klórmeðferð sem bandarískir kjúklingar fá áður en þeir fara á neytendamarkað þannig að flestir virðast reyna að huga að því að heilbrigði manna og dýra sé gætt til hins ýtrasta og ég mun ekki slaka á í þeim efnum.