Kjötmjölsverksmiðja

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:49:47 (5967)

1997-05-07 14:49:47# 121. lþ. 118.7 fundur 569. mál: #A kjötmjölsverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin og fagna því sérstaklega að uppi eru áform um að styðja við Borgarnesverksmiðjuna og gera henni kleift að endurnýja tækjakost og auka framleiðnina. Ég held að ekki sé hægt að reikna bara í krónum og aurum þegar maður er að tala um hagkvæmni af slíkri verksmiðju því að þetta er stórkostlegt umhverfismál og margur ávinningur sem fæst af þessu sem ekki sést við fyrstu athugun. Hins vegar er Borgarnesverksmiðjan, jafnvel þó hún verði stækkuð, lítil og annar ekki nema Vesturlandi, kannski af Skagafjarðarsvæðinu og til Reykjavíkur, en gríðarlegur sláturúrgangur fellur til á Suðurlandi og ég mundi telja mjög mikilvægt að þar yrði reynt að byggja upp aðra litla verksmiðju sem annaði sláturúrgangi þaðan. Ég teldi æskilegt að staðsetja aðra slíka verksmiðju t.d. á Hellu.

Vegna riðu hér í landi er óæskilegt að flytja sláturúrgang mikið milli landsvæða þannig að ég held að sú hugmynd sem var uppi á tímabili um eina stóra verksmiðju fyrir landið sé ekki góð þá þegar af þeim ástæðum. Við erum að vísu með riðulaus svæði hér að kalla má núna. Það hefur alla vega ekki komið upp riða undanfarin ár hvorki á Suðurlandi né Vesturlandi og það gefur okkur einmitt sérstaka möguleika varðandi markaði fyrir kjötmjöl núna vegna þess að nú er gríðarlegur ótti að grípa um sig erlendis vegna vaxandi riðu í gæludýrum sem er talið að þau hafi fengið úr fóðri. Ef við getum boðið kjötmjöl af örugglega riðufríum svæðum, þá mundi það bæta mjög aðstöðu okkur til að markaðssetja þetta.