Kjötmjölsverksmiðja

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:52:08 (5968)

1997-05-07 14:52:08# 121. lþ. 118.7 fundur 569. mál: #A kjötmjölsverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er ekki miklu við að bæta. Aðeins út af því sem kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar vil ég árétta að hann nefndi að hér væri talið að um arðbæra starfsemi væri að ræða. Það er einmitt það sem við viljum að sé skoðað til þrautar og er það sem hefur verið til umfjöllunar hjá stjórn Framleiðnisjóð landbúnaðarins, hvort eðlilegt eða réttlætanlegt gæti talist miðað við verkefni sjóðsins að hann styrki þessa starfsemi, því verkefni hans eru fremur á öðru sviði. Þar að auki einmitt þetta að e.t.v. hafi verksmiðja af þessu tagi viðskiptalegan grundvöll sem væri mikilvægast að gæti gengið þannig upp. Hitt vil ég síðan undirstrika að ég tel, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur, að hér er um að ræða afar stórt umhverfismál sem umhverfisyfirvöld ekkert síður en landbúnaðaryfirvöld þurfa að huga að. Ég sat fyrir nokkrum dögum fulltrúaráðsfund Sorpu þar sem þessi mál voru sérstaklega til umfjöllunar. Eins og ég nefndi áðan er mikill áhugi hjá fulltrúum þess fyrirtækis á frekara samstarfi við þá aðila í Borgarnesi sem hafa verið að gera tilraun í þessu efni um að það gæti haldið áfram. Ég hygg að það þurfi að leggja áherslu á að verksmiðja af þessu tagi sé til, en auðvitað með fullri gát gagnvart búfjársjúkdómum eins og hv. fyrirspyrjandi tók einnig réttilega fram varðandi riðu. Ég vil einnig minna á það sem ég nefndi varðandi aukinn innflutning á ferskum eða frystum landbúnaðarafurðum sem gætu þurft að meðhöndlast sérstaklega en er erfitt að eiga við þegar slíkur úrgangur er kominn með almennu sorpi. Það er því að ýmsu að huga í þessu efni og nauðsynlegt að fylgja því eftir.