Dómar, skaðabætur og fjöldi grófra líkamsárása

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:08:08 (5974)

1997-05-07 15:08:08# 121. lþ. 118.9 fundur 600. mál: #A dómar, skaðabætur og fjöldi grófra líkamsárása# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Upplýsinga var aflað vegna þessarar fyrirspurnar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, héraðsdómstólum og Hæstarétti. Þær upplýsingar sem bárust um fjárhæð skaða- og miskabóta eru engan veginn tæmandi þar sem þolendur sækja í sumum tilvikum bætur í einkamáli á hendur brotaþola og sama á við um upplýsingar um örorku þolenda. Helgast þetta af því að endanlegar upplýsingar um örorku og bótakröfur þolenda liggja ekki fyrir í mörgum tilvikum þegar sakamál á hendur brotamanni er tekið til meðferðar hjá dómstólum. Í mjög mörgum tilvikum hafa því þolendur sótt skaðabætur síðar í einkamáli á hendur brotamanni eða samið um greiðslu bóta en upplýsingar um slíkt liggja ekki fyrir. Þær upplýsingar sem hér eru veittar eru því gefnar með fyrrgreindum fyrirvara. Upplýsingum um refsingar verður einnig að taka með fyrirvara því þó svo að ummrædd brot falli öll undir það að kallast grófar líkamsárásir eru þau engu að síður mismunandi að grófleika og afleiðingar árása mismunandi. Þá er í mörgum tilvikum ákært og dæmt fyrir fleiri brot en líkamsárás sem hefur að sjálfsögðu áhrif á þyngd refsingar.

Samkvæmt almennum hegningarlögum má skipta líkamsárásum í þrjá flokka eftir grófleika. Grófustu brotin eru flokkuð sem brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var óskað eftir upplýsingum um brot gegn umræddu ákvæði hjá Rannsóknarlögreglunni og dómstólum. Samkvæmt upplýsingum Rannsóknarlögreglunnar má á tímabilinu frá 1. janúar 1993 til 1. maí 1997 telja 80 mál þar sem um grófar líkamsárásir var að ræða. Af þeim voru 59 mál send ríkissaksóknara þar sem afdrif þeirra voru ýmist útgáfa ákæru og dómur í framhaldi af því eða niðurfelling en nákvæmar upplýsingar um skiptinguna þarna á milli liggja ekki fyrir á þessari stundu. 18 kærur voru felldar niður eða vísað frá og fimm mál eru enn í rannsókn.

Hjá héraðsdómi Reykjavíkur fengust upplýsingar um 30 mál þar sem 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga kemur við sögu. Upplýsinga um dæmdar skaðabætur, miskabætur eða örorku þolenda var ekki unnt að afla á þeim tíma sem gefinn var til að svara fyrirspurninni en leitað var upplýsinga úr málaskrá embættisins. Dæmdar refsingar voru frá tveggja mánaða fangelsi upp í fimm ára fangelsi.

Hjá héraðsdómi Reykjaness fengust þær upplýsingar að sjö mál snertu 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Upplýsingar um örorku lágu ekki fyrir en í einu tilviki lést árásarþoli. Í fjórum málum af sjö voru dæmdar skaða- og/eða miskabætur að fjárhæð frá kr. 49 þús. upp í tæpar 4 millj. kr. Í öllum tilvikum voru ákærðu sakfelldir og fengu dóma frá sex mánaða fangelsi upp í 18 mánaða fangelsi.

Hjá héraðsdómi Vesturlands fengust þær upplýsingar að tvö gróf líkamsárásarmál hefðu komið til kasta dómstólsins. Ekki liggja fyrir upplýsingar um örorku þolenda. Í öðru málinu var ekki gerð skaðabótakrafa og í hinu kom skaðabótakrafan ekki til meðferðar þar sem hún var að fullu greidd þegar málið kom til kasta dómstólsins. Í öðru málinu var ákærði dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í hinu málinu var ákærði dæmdur í tveggja ára fangelsi. Í Hæstarétti var sú refsing skilorðsbundin.

Hjá héraðsdómi Vestfjarða fengust þær upplýsingar að eitt mál hefði komið til kasta dómstólsins. Ekki var þar um varanlega örorku að ræða en ákærði var dæmdur til að greiða þolanda rúma 1 millj. kr. í skaðabætur. Hann var jafnframt dæmdur í 15 mánaða fangelsi en þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir.

Hjá héraðsdómi Norðurlands vestra fengust upplýsingar um eitt mál. Þar lá örorka þolenda ekki fyrir og ekki hafði verið gerð skaðabótakrafa í refsimálinu. Ákærði var dæmdur í 18 mánaða fangelsi.

Hjá héraðsdómi Norðurlands eystra voru þrjú mál. Þar lágu ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um örorku þolanda að öðru leyti en því að í einu tilvikinu lést árásarþoli. Í einu tilviki voru skaðabætur að fullu greiddar er málið kom til kasta dómstólsins, skaðabætur að fjárhæð tæplega 50 þús. kr. voru dæmdar í einu málinu en fyrirvari var þar gerður um frekari bótakröfur og í þriðja málinu var ekki gerð skaðabótakrafa. Ákærðu hlutu fangelsisdóma frá 12 mánaða fangelsi upp í átta ára fangelsi.

Hjá héraðsdómi Austurlands fengust þær upplýsingar að um eitt mál hefði verið að ræða. Þar lágu upplýsingar um örorku ekki fyrir og ekki var gerð skaðabótakrafa í sakamálinu. Ákærði var dæmdur í 18 mánaða fangelsi.

Hjá héraðsdómi Suðurlands var upplýst að ein ákæra vegna grófrar líkamsárásar væri til meðferðar en dómur hefði ekki gengið.

Á tímabilinu komu til Hæstaréttar 17 mál sem rétturinn flokkar sem grófar líkamsárásir, þ.e. gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í þremur tilvikum lést árásarþoli og í einu tilviki hlaut árásarþoli 100% örorku. Nákvæmar upplýsingar um örorku liggja að öðru leyti ekki fyrir. Í fjórum tilvikum af 17 voru dæmdar skaðabætur frá 144 þús. kr. upp í 2 millj. kr. Í þremur tilvikum var skaðabótakröfu vísað frá en í tíu tilvikum var skaðabótakrafa ekki gerð í refsimálinu. Í 15 tilvikum af 17 var ákærði sakfelldur, sýknað var einu sinni og einn var dæmdur ósakhæfur til vistunar á viðeigandi stofnun. Ákærðu hlutu dóma frá fjögurra mánaða skilorðsbundnu fangelsi upp í 12 ára fangelsi, en í því tilviki var um mjög alvarlegt brot að ræða og ekki einungis grófar líkamsárásir.

Herra forseti. Ef framangreindar upplýsingar eru teknar saman kemur fram að á umræddu tímabili komu 80 mál til kasta Rannsóknarlögreglu ríkisins, 46 mál til kasta héraðsdómstóla, þar af var 17 málum áfrýjað til Hæstaréttar. Refsingar voru frá tveggja mánaða fangelsi upp í 12 ára fangelsi en oft og tíðum er um að ræða refsingu fyrir fleiri brot en grófa líkamsárás.