Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:17:27 (5977)

1997-05-07 15:17:27# 121. lþ. 118.10 fundur 601. mál: #A réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í febrúarmánuði 1981 var samþykkt þáltill. frá mér og fleirum um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð þess efnis að Alþingi skoraði á ríkisstjórnina að láta þegar fara fram könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Sérstaklega átti að skoða eignar- og erfðaréttinn. Nefndin skyldi hraða störfum og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kæmi saman.

Ári eftir að þessi tillaga var samþykkt beindi ég fyrirspurn til hæstv. þáv. dómsmrh. um hvað liði framkvæmd þessarar tillögu. Ráðherrann sagði að vænta mætti þess eða hugsanlegt væri að frv. um þetta mál yrði lagt fram á þinginu þar á eftir. Í yfirliti sem fram kom 1986 að mig minnir um framkvæmd á þingsályktunartillögum sem voru samþykktar á Alþingi á árunum 1975--1985 kemur fram varðandi þessa tillögu að hún sé til skoðunar hjá sifjalaganefnd. Ég hef spurst fyrir um þetta í dómsmrn. og þar kom fram hjá fulltrúa dómsmrn. sem ég talaði við að engin gögn hefðu fundist í ráðuneytinu um að nefnd hafi verið skipuð í kjölfar þáltill. og málið hafi ekki farið til sifjalaganefndar. Málið er allt hið sérkennilegasta, en ljóst, virðulegi forseti, að ekkert hefur verið gert með þessa þál. eða þann vilja Alþingis sem þar kom fram.

Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð er mjög ótrygg og þetta sambúðarform hefur farið vaxandi á undanförnum árum og fjöldi fólks sem er í óvígðri sambúð stendur í þeirri trú að eftir þriggja ára sambúð öðlist það gagnkvæman eignar- og erfðarétt. En sá aðili í óvígðri sambúð sem eignir eru ekki skráðar á virðist algjörlega réttlaus komi til slita á sambúð eða við andlát sambúðaraðilans.

Það er alveg ljóst að þegar um sambúðarfólk er að ræða renna eigur hins látna óskiptar til barna og ef engir lögerfingjar eru til staðar renna eigur hins látna í erfðafjársjóð án þess að nokkuð komi í hlut eftirlifandi sambúðaraðila. Svipað er uppi við fjárskipti í slíku sambúðarformi.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög brýnt að setja lög um stöðu fólks í óvígðri sambúð og að eignar- og erfðaréttur þess verði betur tryggður en nú er. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því eða hvort hann muni leggja fram tillögu fyrir Alþingi sem tryggi eignar- og erfðarétt fólks í óvígðri sambúð í samræmi við þá þáltill. sem Alþingi hefur samþykkt og hvernig ráðherrann hyggist þá framfylgja þeirri þál. um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð sem samþykkt var 1981 og framkvæmdarvaldið virðist ekkert hafa gert með. Hér er ég ekki að ásaka sérstaklega hæstv. núv. dómsmrh. Hér hafa margir dómsmálaráðherrar átt í hlut, en engu að síður er nauðsynlegt að Alþingi fái vitneskju um hvernig á að standa að framkvæmd þessa máls.