Staða þjóðkirkjunnar

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 19:37:26 (5990)

1997-05-07 19:37:26# 121. lþ. 119.25 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:37]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir greinargóða ræðu og geta þess varðandi ráðningartíma hjá prestum að ég tel að ráðningarmálin séu ekki aðalatriði í frv. og ég hygg að við séum sömu skoðunar á því.

Ég hefði ekki viljað láta þetta mál, svo mikilvægt sem það er að flestra dómi, stöðvast á þessu ákvæði en ég hygg að mikill þingmeirihluti sé fyrir því að hafa fimm ára ráðningartíma og ýmsar ástæður gefnar fyrir því og ég reyndi raunar að rekja þær í minni ræðu.

Hins vegar er það að komi ekki upp óskir í söfnuðinum í síðasta lagi átta mánuðum fyrir lok skipunartímans hjá presti er litið svo á að hann sé endurráðinn til næstu fimm ára. Það þarf því ekki að vera nein sérstök endurskoðun nema eitthvað sé að, en þá er endurskoðunin auðvitað alltaf í gildi vegna þess að úrskurðarnefnd er að störfum og það er alltaf hægt að kvarta undan embættismanninum, sóknarprestum eða hverjum sem hann er, ef hann ekki stendur sig og hægt að fara þá leið. Hún er miklu fljótvirkari en að bíða þangað til fimm ára skipunartímanum lýkur.

Varðandi það að standa skuli um langa framtíð samningur um eignarmál kirkjunnar, þá vil ég aðeins geta þess að það er ekkert óeðlilegt að aðilar geri með sér samning. Eignarréttur á Íslandi er stjórnarskrárvarinn.