Viðskipti með aflaheimildir

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 13:48:10 (5996)

1997-05-09 13:48:10# 121. lþ. 120.95 fundur 321#B viðskipti með aflaheimildir# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er þakkarvert að hv. 4. þm. Vestf. hefur tekið þetta mál upp og fengið svör frá hæstv. dóms- og sjútvrh. varðandi málið. Hér er um að ræða mál sem hefur verið lengi mjög umdeilt, eitt af því sem hart er gagnrýnt í sambandi við núverandi stjórnkerfi fiskveiða og hefur verið einn af þeim fleinum sem vísað hefur verið til af þeim sem gagnrýnt hafa þetta kerfi. Mér finnst athyglisverð sú afstaða sem hæstv. dómsmrh. hefur tekið í þessu máli, að beina því mjög eindregið til útgerðarmanna að halda samninga. Hann hefur hvatt til þess og fordæmt það athæfi sem hér er stundað leynt og ljóst. Það sætir auðvitað tíðindum þegar hæstv. ráðherra frá Sjálfstfl. vísar sjómönnum á þá leið að þeir hafi rétt til vinnustöðvunar og aðgerða vegna þess að um brot á kjarasamningi sé að ræða. Það er fyllilega hægt að taka undir þau sjónarmið.

Það var lengi svo að þrætt var fyrir það að þessi viðskipti væru í einhverjum teljandi mæli. En það hefur sýnt sig æ betur að sú er raunin. Nú hafa dómar fallið þannig að það styrkir að sjálfsögðu stöðuna í sambandi við þetta. En það reynir þá á að til aðgerða verði gripið sem duga. Þetta er ekkert einfalt mál sem verið er að fást við ef vilji er hjá áhöfn eða áhöfn er knúin til þátttöku í slíkum viðskiptum og gerir það ekki opinbert eða setur það í hart. (Forseti hringir.) Það reynir því á báða aðila að þeir standi fast á lögum og rétti. En auðvitað er þetta mál sem bitnar fyrst og fremst á sjómannastéttinni í landinu.