Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:29:24 (6003)

1997-05-09 14:29:24# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:29]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú erfitt að fara í andsvar við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um þetta efni. Satt að segja er ég ákaflega hlynntur mikilli menntun guðfræðinga og þeirra sem taka að sér prestsstörf. En þetta er ósk frá yfirstjórn kirkjunnar. Það eru tiltölulega fá ár síðan starfsþjálfun kandídata var tekin upp og hún varð fjórir mánuðir. Það þykir vel í lagt og fullmikið þannig að menn reikna með að tveir mánuðir séu fullnægjandi. En hitt er annað mál að samþykkjum við frv. sem verður rætt hér á eftir um stöðu, stjórn og starfshætti þá færist ákvörðunarvaldið til kirkjuþings um hvernig þessari starfsþjálfun verði hagað og ég tel mjög eðlilegt að hún verði vönduð og innihaldsrík.

Ég get sagt það, af því að ekki eru fleiri sem koma til með að fara í andsvar eftir því sem mér skilst, að ég hafði ekki séð lík fyrr en ég stóð við opna kistu til að kistuleggja sjálfur. Þá var ekki búið að þjálfa kandídata í neinu slíku og maður varð að fara beint inn til þess að sinna þessum verkum. Það er mikilvægt að fá þjálfun áður og ég tek undir allt það sem hv. þm., ræðumaður sagði áðan um mikilvægi þess að mæta vel undirbúinn til þessa mikilvæga starfs sem ég sinnti þangað til fyrir skömmu.