Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:33:53 (6006)

1997-05-09 14:33:53# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:33]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þau ummæli sem féllu hér síðast frá hv. þm. Hjálmari Jónssyni um að hann hefði hreinlega lent í vandræðum með kandídatinn ef hann hefði þurft að hafa hann lengur finnst mér miklu frekar endurspegla hvernig skipulagið er á þessum málum en hvort þörf er á svo langri starfsþjálfun. Ég ætla að koma betur að því á eftir. En ég vil eindregið taka undir nál. minni hluta allshn. og mér finnst það heldur snautlegt að verið sé að breyta hér lögum til þess að koma á móti sparnaðaráformum kirkjunnar í heldur vondu máli að því er mér finnst.

Ég hef fylgst það vel með þróun í Háskóla Íslands og kennslu í guðfræði að ég veit að þar hefur orðið veruleg breyting á. Það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það hafi ekki orðið breyting í sjálfri deildinni. Ég hygg að guðfræðideildin sé nú orðin með hvað mest spennandi deildum Háskólans enda er mikil aðsókn að henni og ekki síst konur sem sækja þangað inn. Það er ekki síst tengt kvennaguðfræði og allri þeirri umræðu, fyrir utan það að starfsvettvangur presta hefur verið að breytast verulega og nýir möguleikar að koma þar til sögunnar sem reyndar eru jafnvel umdeildir, sumir úr prestastétt hafa gagnrýnt að búið sé að koma upp nýrri stétt, eins konar aðstoðarprestum, þ.e. djáknunum. Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu en röksemdirnar eru þær að í raun og veru sé verið að lengja bilið á milli prestanna og safnaðarins. Ég hef hins vegar mikla sannfæringu fyrir því að vegna hinna miklu breytinga og hins mikla álags sem er almennt á prestum og ekki síst í þéttbýli þá sé mjög brýnt að búa guðfræðikandídata sem allra best undir þetta mikilvæga starf. Og ég mundi halda að ef tveir mánuðir eru nóg hjá einum presti eða einum söfnuði þá væri ekki síður brýnt að gefa guðfræðikandídötum kost á að kynnast fleiri en einni sókn, vera bæði í dreifbýli og þéttbýli því það er auðvitað mjög mikill munur á þessu tvennu.

Nú skal ég viðurkenna að ég þekki ekki til þessarar starfsþjálfunar. Ég veit að það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Jónssyni að guðfræðinemar eru í ýmiss konar vinnu á sumrin sem tengist störfum þeirra. Þeir hafa unnið á geðdeildum, þeir vinna hjá lögreglunni og það er ýmislegt sem þeir gera til þess að kynna sér það samfélag og þann vettvang sem snertir þeirra störf. Þannig að eftir því sem ég best veit er vel að þeim málum staðið en engu að síður finnst mér að það sé ekki mönnum bjóðandi að vera að skera niður þessa starfsþjálfun sem er þeim mjög mikilvæg. Það væri fróðlegt að fá upplýst hvað menn eru að tala hér um mikla peninga. Það kemur fram í frv. að talið er að kostnaðurinn sé um 500 þús. kr. á hvern kandídat. Það er afar misjafnt hversu margir útskrifast í hvert sinn eða á hverju ári og það eru auðvitað ekki allir sem ætla sér að verða prestar og þar af leiðandi er mér ekki ljóst hvort þeir eru skyldaðir í þessa starfsþjálfun. Það væri gott að fá það upplýst hvernig því er háttað en þetta eru nú ekki þeir peningar að þarna beri að skera niður. Mér þætti gaman að sjá hvort kirkjan getur ekki dregið saman seglin einhvers staðar annars staðar eða hreinlega leitað eftir fjárveitingum í þessa mikilvægu þjónustu. Í rauninni spyr maður sig hvort þetta eigi ekki að vera partur af háskólanáminu. Hver er það sem á að annast þetta? Ef þetta er hluti af því að gera guðfræðikandídata betur hæfa til þess að sinna sínu starfi þá er náttúrlega spurning hvort þetta á ekki hreinlega að vera hluti af háskólanáminu. En sú er ekki raunin heldur er þetta greitt úr ákveðnum sjóði, kirkjumálasjóði, og þar af leiðandi koma þessi mál ekki inn á borð ríkissjóðs. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvernig eða hvaðan peningar koma í þennan kirkjumálasjóð, hvernig hann er vaxinn. Þeir eru margir sjóðirnir og það er svo margt innan kirkjunnar sem tengist gömlum tímum. Hér áður fyrr var það mjög algengt að prestar víða um land höfðu aðstoðarpresta og þannig komust menn inn í starfið. Það er mjög að því þrengt núna að hægt sé að ráða aðstoðarpresta þannig að þetta hefur auðvitað verið að breytast.

Af því að hv. þm. Hjálmar Jónsson gekk nú í salinn þá mundi ég vilja beina þeirri spurningu til hans eða hv. formanns allshn. hvernig þessi sjóður er til kominn, hvaðan kemur fjármagn í kirkjumálasjóð, sem á að standa undir þessari starfsþjálfun. Það er greinilegt að hann fær eitthvert ákveðið fjármagn. Guðfræðikandídötum hefur fjölgað þannig að þarna hefur þrengt að. Ég vildi gjarnan fræðast um það hvernig þetta mál er vaxið. En fyrst og fremst finnst mér skipta mjög miklu máli að guðfræðideild háskólans leggst gegn þessari breytingu og ég er alveg sannfærð um að það er ekki að ástæðulausu og ég hefði kosið að menn reyndu að leita annarra leiða heldur en að vera að skera niður þessa mikilvægu starfsþjálfun.