Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:49:16 (6012)

1997-05-09 14:49:16# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli framsögumanns meiri hluta nefndarinnar að nefnd væri að störfum um þessi mál. Ég spyr: Er þá ekki óráðlegt að leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi áður en nefndin skilar af sér? Er ekki eðlilegt fyrst á annað borð það eru rök í málinu að nefnd sé að störfum að bíða eftir niðurstöðum hennar og tillögum?

Og í öðru lagi: Hvert er mat meiri hluta nefndarinnar, sem leggur til að samþykkja þennan niðurskurð á starfsþjálfun, á þessari tillögu? Er hún sammála? Telur meiri hluti nefndarinnar nægilegt að starfsþjálfun sé bara í tvo mánuði? Ef hún telur það nægjanlegt, af hverju leggur hún þá ekki til að það sé varanleg breyting? Ef hún hins vegar telur að það sé ekki nægjanlegt, af hverju leggur hún þá til þessa breytingu?