Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:58:08 (6019)

1997-05-09 14:58:08# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:58]

Frsm. (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 1034, 591. mál., sem flutt er af allshn. Um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990, og flytur allshn. þetta mál að ósk hæstv. dómsmrh.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á skipan Skálholtsprestakalls, en samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laganna skal vígslubiskup í Skálholti hafa með höndum prestsþjónustu í Skálholtsprestakalli. Í 5. tölul. ákvæðis til bráðabirgða segir hins vegar að vígslubiskup gegni ekki prestsstörfum í Skálholtsprestakalli meðan núverandi sóknarprestur þjónar kallinu. Sóknarprestur sá sem nú gegnir starfi í Skálholtsprestakalli mun láta af störfum fyrir aldurs sakir 1. janúar 1998. Af hálfu biskups Íslands og sóknarnefnda Skálholtsprestakalls hafa komið fram eindregin tilmæli um að í Skálholti verði áfram starfandi sóknarprestur. Hefur verið vakin athygli á því að prestakallið sé víðfeðmara og meira krefjandi en svo að vígslubiskup geti sinnt því ásamt öðrum embættisskyldum. Starfi hans fylgja ferðalög og fjarvistir og því verður ekki unnt að veita þá þjónustu í prestakallinu sem verið hefur. Fjórar kirkjusóknir heyra undir prestakallið og þar fer fólki fjölgandi, auk þess sem gjarnan er leitað eftir sérstakri þjónustu sóknarprests vegna ört vaxandi sumarhúsabyggðar og fjölsóttra sögustaða í prestakallinu. Rétt þykir að verða við þessum tilmælum biskups og sóknarnefnda og eru því lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum.

Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða, en um þessar mundir fer fram endurskoðun á Rangárvallaprófastsdæmi með það fyrir augum að fækka stöðum sóknarpresta vegna fámennis sókna og fólksfækkunar. Að svo komnu máli þykir ekki rétt að skipa prest í Bergþórshvolsprestakalli, en núverandi sóknarprestur mun láta af embætti fyrir aldurs sakir 1. júní 1997. Þess í stað er gert ráð fyrir að nágrannaprestur verði fenginn til að þjóna prestakallinu. Hefur biskup Íslands og sóknarnefnd í prestakallinu lýst sig samþykka þessu fyrir sitt leyti. Er því lagt til að sett verði inn í ákvæði til bráðabirgða heimild til að setja prest í það embætti tímabundið meðan endurskoðun á prófastsdæminu fer fram.

Í samræmi við þetta er lagt til að frv. öðlist gildi þann 1. júní 1997.

Í þriðja lagi er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða er varða Grafarvogsprestakall í Reykjavíkurprófastsumdæmi eystra. Í Grafarvogsprestakalli hefur íbúafjöldi vaxið með ótrúlegum hraða og eru þar nú rúmlega 13 þúsund íbúar. Samsetning íbúa og lega sóknarinnar, sem er langfjölmennasta sókn landsins, er slík að ekki stendur til að kljúfa prestakallið í tvær sóknir eins og stendur. Vegna mikils vinnuálags á prestana tvo í prestakallinu þykir óhjákvæmilegt að fjölga um einn prest til viðbótar. Lagt er til að heimild til ráðningar prestsins gildi frá gildistöku laganna til ársloka 1998 en þá er gert ráð fyrir að lög um skipan prestakalla og prófastsdæma falli úr gildi og kirkjuþing hafi sett starfsreglur um þetta efni. Hér er því um tímabundið bráðabirgðaákvæði að ræða.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. en ekki er ástæða til að vísa frv. sérstaklega til hv. allshn. þar sem frv. er upprunnið þaðan.