Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:05:20 (6023)

1997-05-09 15:05:20# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:05]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sé mig eiginlega knúinn til þess að taka til máls um þetta frv. til þess að fá frekari skýringar á því hvers vegna það er flutt. Mér er hulin ráðgáta á hvaða forsendum það er reist í ljósi m.a. þeirrar röksemdafærslu sem fylgir í frv. sjálfu. Við skulum rifja aðeins upp að staðan er þannig að samkvæmt núgildandi lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma er gert ráð fyrir því að vígslubiskup í Skálholtsprestakalli sitji þar og þjóni fjórum sóknum með öðrum störfum sínum sem vígslubiskup þannig að hann gegni störfum sínum sem vígslubiskup auk þess að vera þjónandi prestur fyrir fjórar sóknir, Skálholtssókn, Bræðratungusókn, Haukadalssókn og Torfastaðasókn. Sú undanþága hefur gilt samkvæmt sérstöku ákvæði til bráðabirgða, tímabundið, að í Skálholti hefur verið sérstakur prestur sem sinnt hefur prestsverkunum þannig að vígslubiskup hefur ekki þurft að sinna þeim. Nú er sá prestur að láta af störfum og reynir þá á ákvæði laganna þannig að vígslubiskup beri að bæta þeim verkum við sig sem presturinn áður sinnti og samkvæmt lögunum er ætlast til að vígslubiskup í Skálholti sinni.

Nú eru færð fyrir því nokkur rök að rétt þyki að verða við óskum biskups Íslands og sóknarnefnda í þessum fjórum prestaköllum að áfram verði starfandi prestur í Skálholti sem sinni þessum verkum. Rökin eru hins vegar ekki mjög sterk, þ.e. vaxandi sumarhúsabyggð og að það séu fjölsóttir sögustaðir í prestakallinu fyrir utan að störf vígslubiskups séu umfangsmikil vegna þess að umdæmi hans er mjög víðfeðmt og hann þurfi að fara í tímafrek ferðalög. Þetta þykja mér ekki mjög öflug rök fyrir þessari breytingu og öflugustu rökin gegn þessum rökum er seinni kaflinn í frv. sem gerir ráð fyrir því að opna heimild til þess að fjölga sóknarprestum í Grafavogsprestakalli úr tveimur í þrjá enda eru þar 13 þúsund íbúar. Með öðrum orðum: Frumvarpshöfundar eða þeir sem flytja málið telja að í 13 þúsund manna sókn verði að hafa þrjá presta. Hvað skyldu nú vera margir íbúar í þessum fjórum sóknum sem rætt er um að prestur í Skálholti eigi að þjóna, Skálholts-, Bræðratungu-, Haukadals- og Torfastaðasóknum? Hvað skyldu það vera margir íbúar? Það kemur ekki fram í grg. með frv. Og ég spyr talsmann flutningsmanna málsins: Hvað eru mörg sóknarbörn í þessum fjórum sóknum? Ég hef ekki gáð að því þannig að ég get ekkert um það fullyrt. En ég leyfi mér að segja að ég held að þeir séu ekki margir. Mér er til efs að þeir séu fleiri en 500. Og ef ég gef mér að ég sé nærri lagi með þá ágiskun að sóknarbörn í þessum fjórum sóknum séu ekki fleiri en 500 þá spyr ég: Hvernig má það vera að það þurfi sóknarprest fyrir 500 sóknarbörn en bara þrjá fyrir 13 þúsund? Hvernig má það vera? Hvernig fá menn það heim og saman? Ég verð að segja alveg eins og er --- þess vegna fer ég upp til að fá skýringar --- að ég hef ekki áttað mig á því. Ég hef ekki áttað mig á því að það væri þörf á þessu prestsembætti í Skálholti. Og ég fer fram á það að formaður allshn. færi rök fyrir því hér, ellegar hæstv. dómsmrh. sem vildi ekki flytja málið sjálfur heldur fékk nefndina til þess. Þannig að ég hygg að það sé allt í lagi, úr því það er upplýst, að beina fyrirspurninni til dómsmrh.: Hvers vegna þarf að gera þessa breytingu?

Ég viðurkenni að vísu að það eru ein rök í málinu sem mér finnst vera lítandi á og það er að staða vígslubiskupanna tveggja er ólík, umdæmi þeirra eru mjög misstór. Þannig að umdæmi vígslubiskupsins á Hólum sem á að gegna þremur sóknum og hefur gert, er minna en vígslubiskupsins í Skálholti (Gripið fram í: Talsvert mikið minna.) Talsvert mikið minna. En þá eiga menn að mínu viti að breyta því. (Gripið fram í: Nei.) Þá eiga menn að breyta umdæmi vígslubiskupanna. Hví skyldu menn setja embætti vígslubiskups á Hólum skör lægra en embætti vígslubiskups í Skálholti? Hver eru rökin fyrir því að annað embættið skuli vera miklu víðfeðmara en hitt? Ég hefði talið eðlilegast í þessari stöðu að jafna þarna um í umfangi umdæma þeirra og þeir sætu að öðru leyti í sömu stöðu með sambærilegar skyldur sem vígslubiskupar og sinntu þá báðir prestsverkum í tilteknum sóknum eins og gert er ráð fyrir í lögunum eins og þau eru núna.

Ég vil nú vekja athygli á þessu, herra forseti, og beini því bæði til talsmanns þeirra sem flytja málið og hæstv. dómsmrh. að þeir geri þinginu frekari grein fyrir þessari breytingu, sérstaklega í ljósi þess að við vorum að ræða rétt áðan tillögu frá hæstv. dómsmrh. sem gengur út á að það þurfi að skera niður starfsþjálfun vegna þess að menn eiga ekki til nóg af peningum og þurfa að spara sér 4 milljónir á ári, að fara að leggja út í þann leiðangur að leggja hér bara fram frv. og fara með það í gegnum þingið til að spara 4 milljónir á ári. Hvernig má það vera að þegar menn þurfa að leggja svona mikið á sig til að spara að þá skuli koma frv. af þessu tagi fram á sama tíma sem auðvitað felur í sér meiri útgjöld en lögin að óbreyttu hefðu annars leitt af sér?