Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:12:48 (6024)

1997-05-09 15:12:48# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:12]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf. vil ég minna á þau rök sem fram koma í athugasemdum með frv. og gerð hefur verið grein fyrir í máli hv. frsm. með frv. Það er líka alveg ljóst að hér erum við að tala um annan af hinum fornu biskupsstólum og það þykir eðlilegt að sóknarprestur sitji þar sem hefur meira færi á að sinna því starfi en vígslubiskupinn vegna þess hversu starfsskyldur hans eru miklar og umdæmi hans víðfeðmt.

En vegna ummæla hv. þm. um að þetta þurfi að skoða í sérstöku ljósi þess að kirkjan er að grípa til sparnaðarráðstafana á öðrum sviðum og fá lagaheimildir til þess þá minni ég á að hér er verið að flytja prest úr Landeyjum yfir í Skálholt. Það er verið að flytja prest úr minna prestakalli yfir í lítið eitt stærra prestakall. Þannig að með þessari ráðstöfun er ekki verið að auka útgjöld vegna þessa heldur er verið að færa þarna til og í ljósi þeirra aðstæðna sem eru fyrir hendi þá þykir eðlilegt að flytja prest úr minna prestakalli og setja það embætti niður í Skálholt þannig að leysa megi þau mál með sóma svo sem þeim stað ber.