Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:19:55 (6028)

1997-05-09 15:19:55# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:19]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um frv. um stöðu og skipan kirkjunnar, sem verður væntanlega fram haldið hér í dag, vék ég að þessu atriði með skipan vígslubiskupsdæmanna. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh. að það eru fyrst og fremst söguleg rök sem hníga að því að eftir að þessi embætti voru endurreist ákváðu menn að halda sig við hina fornu skipan sem er frá því um 1100, ef ég man rétt var biskupsdæmi stofnað á Norðurlandi árið 1106. Rökin fyrir þeirri skiptingu sem þá var ákveðin voru þess eðlis að vegna þess hve Norðlendingafjórðungur var fjölmennur þá þyrftu þeir að fá biskup og talið eðlilegt að skipta landinu þannig og þessu hefur ekki verið breytt. Það er misskilningur sem fram kom hér að biskupsdæmi norðan lands hafi náð til Austurlands, þingmaðurinn er kannski að hugsa um ömtin sem voru með ýmsu móti en öldum saman voru Norðurland og Austurland eitt amt. En hvað sem því líður þarf kannski að skoða þessa skipan. En það sem ég vildi helst víkja að er að ég skil það að menn þurfi að leysa ýmis vandamál en á sama tíma og verið er að leggja til þær lagabreytingar sem eru í þessu frv. er í frv. um stöðu þjóðkirkjunnar verið að færa þetta vald til kirkjunnar og til kirkjuþings eins og segir í 49. gr. frv. ,,... að setja starfsreglur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma``. Það er því verkefni sem kirkjan mun taka að sér og má segja sem svo að eðlilegt væri að bíða með allar breytingar þar til málin eru komin til kirkjunnar. Það væri sem sé hið eðlilega í málinu. Ég ætla hins vegar að gefa mér það að hér sé um brýna þörf að ræða og vil þess vegna taka undir efni þessa frv. Ég lýsi hér með yfir stuðningi mínum við frv.

Ég verð að segja að mér þykir hv. 5. þm. Vestf. ekki þekkja nógu vel til á Suðurlandi en þannig háttar til í Skálholtsbiskupsdæmi, og ekki síst í nágrenni Skálholts eins og kemur fram í frv., að þar er gífurleg sumarhúsabyggð fyrir utan það að Skálholt er orðið eins konar ráðstefnusetur. Þar eru meira og minna allt sumarið ýmist erlendir ferðamenn eða þar er verið að halda námskeið og þar er mikill fjöldi fólks. Jafnvel yfir vetrartímann eru þúsundir manna á þessu svæði. Og þar verða slys og dauðsföll og þörf fyrir ýmiss konar þjónustu. Ég hygg að þegar sóknarnefndir þessa svæðis fara fram á að þarna verði áfram prestur og það verði of mikið á vígslubiskupinn lagt að sinna þessum prestaköllum líka, þá hygg ég að það sé rétt í ljósi þess að þarna er ekki um fámenna byggð að ræða heldur er þarna gífurleg umferð og gífurlegur fjöldi sem býr þarna meira og minna.

Varðandi annan aðstoðarprest í Grafarvogssókn vil ég einnig fagna því því ég veit að í þeirri sókn er gífurlegt álag á prestunum. Það stafar annars vegar af því að þetta er hverfi sem er að byggjast upp og þarna er mjög mikið af börnum og unglingum og það kallar auðvitað á mjög mikla vinnu prests. En þarna er líka mikið af ungu fólki og ég hef það eftir öðrum þessara presta að skilnaðartíðni í þessu hverfi sé töluvert yfir meðallagi á landsvísu. Það er vegna þess að þarna er fólk að glíma við að koma yfir sig húsnæði og lendir í vandræðum og það er einmitt oft einkenni á svona nýbyggðum hverfum að þar gengur mikið á og þar reynir mikið á í lífsbaráttunni. Þannig að ég vil mjög eindregið taka undir það ... (KHG: Gengur þá meira á á Suðurlandi að þar þurfi einn prest á 400 manns?) Nú hefur hv. þm. greinilega ekki hlustað á það sem ég var að segja rétt áðan um þær þúsundir manna sem eru meira og minna búandi á þessu svæði. Því það er ekki aðeins svo að þeir sem eiga sumarhús séu þar bara að sumrinu, fólk fer þangað líka yfir veturinn. Og þarna eru svæði þar sem m.a. verkalýðsfélög eiga marga bústaði o.s.frv. þannig að þarna er mjög mikil umferð fólks. En hvað sem því líður þá held ég að það hljóti að verða verkefni kirkjunnar, og hún hefur sóst eftir því, að fá að ráða skipan prestakalla og geta fært presta til eftir því sem þörf krefur. Það er það sem þeir vilja.

Engu að síður hefði ég viljað velta því aðeins fyrir mér að eins og staðan er í Skálholti þá er þar sóknarprestur, þar situr vígslubiskup og þar er rektor sem einnig er guðfræðimenntaður. Spurningin er hvort hægt væri að koma þessu einhvern veginn fyrir með öðrum hætti, hvort væri eðlilegt að þeir gætu hugsanlega unnið meira saman og gengið í störf hvers annars og þar með létt á þessu mikla álagi sem þarna er og sem ég er alveg sannfærð um að hefur mikið til síns máls. En það gefur auga leið að á sögustöðum eins og í Skálholti og á Hólum reynir töluvert á starfsmennina í alls konar tengslum, menningarlegum og sögulegum tengslum, og ýmiss konar þjónustu sem þeir þurfa að sinna jafnhliða öðrum störfum sem fylgja þessum embættum.