Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:27:47 (6029)

1997-05-09 15:27:47# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:27]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Þær breytingar sem eru lagðar til í þessum tveimur málum sem hafa verið rædd hér af hv. þm. og fleirum, að færa prestsembætti úr Landeyjum í Biskupstungur og að bæta við þriðja prestsembætti í Grafarvogssókn, eru að mínum dómi afar eðlilegar. Þetta er skipan til tveggja ára en síðan mun kirkjuþing fjalla um það þegar það fær valdið og umboðið til þess að skipa þessum málum.

Það er þannig með fleira sem kom fram áðan, að jafna umdæmi vígslubiskupanna og fleira í þeim dúr. Þetta eru umræður sem að mínum dómi ættu helst heima á kirkjuþingi því kirkjuþing er að fá þetta vald og ástæðulaust að við séum rétt í sama mund og við erum væntanlega að samþykkja aukið sjálfstæði kirkjunnar að vera að hlutast til um það valdaumboð sem við erum að afhenda kirkjunni.