Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:29:41 (6031)

1997-05-09 15:29:41# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:29]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli ræðumanns að það væru gild rök í málinu að ferðamenn væru á ferli í þeim sóknum sem um er að ræða. Það rökstyddi að þörf væri fyrir prest fremur en áður. Ég bendi á að ferðamenn eiga allir sínar sóknir. Þeir eiga einhvers staðar heima og hafa sína presta. Það breytist ekki þótt þeir séu á faraldsfæti. Ég vænti þess að þeir geti haft samband við sína presta þótt þeir séu á ferðalögum. En látum það nú vera. Ég spyr þá þingmanninn hvort hann styðji ekki að stofnað verði til prestsembætta annars staðar þar sem Íslendingar eru mikið á faraldsfæti. Mér þætti t.d. nokkur ástæða til þess í ljósi þessarar röksemdarfærslu að stofnað væri að minnsta kosti eitt ef ekki tvö prestsembætti á Spáni. Ég teldi fullgild rök fyrir því út frá því sjónarmiði sem kemur fram í frv. og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir tók mjög undir að styddi þörfina fyrir embættið.