Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:33:29 (6034)

1997-05-09 15:33:29# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:33]

Frsm. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður sem hér hafa átt sér stað. Ég furða mig jafnframt nokkuð á þeim misskilningi sem mér finnst vera á ferðinni hjá sumum hv. þm. Það er nokkuð sérstakt að þeir skuli ekki vilja taka rökum í þessu máli. Allshn. öll flytur þetta frv. og það eru fulltrúar allra þingflokka á hinu háa Alþingi sem standa að málinu. Ég vænti þess að þeir geti þá rætt sérstaklega við sína félaga í sínum þingflokkum um málið ef þeir óska eftir frekari skýringum.

Það er rétt að fjöldi sóknarbarna er ekki tilgreindur í fyrri partinum á þessu frv. eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á hér áðan. Allshn. þótti í raun og veru ekki ástæða til að óska eftir frekari upplýsingum í málinu vegna þess að það er greinilegur vilji þeirra sjálfra, þ.e. sóknarbarnanna og sóknarnefndanna, að gera þessar breytingar. Það hefur líka verið bent á að vígslubiskup hefur mörgum skyldum að gegna lögum samkvæmt og það hefur verið og er starfandi sóknarprestur í Skálholti sem hættir fljótlega. Því þarf að leggja til þessar breytingar.

Ég vil ítreka það sem ég segir í nál. og ég nefndi í framsögu með því áðan, með leyfi virðulegs forseta: ,,Hefur verið vakin athygli á að prestakallið sé víðfeðmara og meira krefjandi en svo að vígslubiskup geti sinnt því ásamt öðrum embættisskyldum. Starfi hans fylgja ferðalög og fjarvistir og því verður ekki unnt að veita þá þjónustu í prestakallinu sem verið hefur. Fjórar kirkjusóknir heyra undir prestakallið og þar fer fólki fjölgandi, auk þess sem gjarnan er leitað eftir sérstakri þjónustu sóknarprests vegna ört vaxandi sumarhúsabyggðar og fjölsóttra sögustaða í prestakallinu. Rétt þykir að verða við þessum tilmælum biskups og sóknarnefnda og eru því lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum.`` Þar er ég að sjálfsögðu að tala um Skálholtsprestakall. Þetta er samkomulagsmál, virðulegi forseti.

Þá vildi ég víkja nokkuð að athugasemdum og spurningum frá hv. þm. Össuri H. Skarphéðinssyni varðandi sóknarnefnd Grafarvogssafnaðar. Ég vil raunar fá að nota þetta tækifæri til að lýsa þeim sjónarmiðum sem liggja á bak við þær breytingar sem allshn. leggur til og fá að lesa hér upp erindi sem Grafarvogskirkja og sóknarnefnd, undirritað af formanni sóknarnefndar, Bjarna Kr. Grímssyni, sendi til allshn. varðandi þetta mál, með leyfi virðulegs forseta. Ég tek hér hluta úr erindinu, sem er dags. 2. apríl 1997:

,,Sóknarnefnd Grafarvogssafnaðar vill koma á framfæri við hv. allshn. Alþingis eftirfarandi ósk um ábendingu: Þann 1. des. sl. voru íbúar í Grafarvogssókn 12.900 og þar af voru 7.110 skráðir sóknarbörn í þjóðkirkjunni, þ.e. voru 16 ára eða eldri og skráðir í þjóðkirkjuna.

Hverfið er mjög ungt og fjölgun þar mjög ör og má nefna að á síðasta ári fjölgaði um 1.100 manns í hverfinu eða um eins og eitt bæjarfélag á landsbyggðinni. Þá er hverfið byggt frekar ungu fólki og er það meginskýring á því lága hlutfalli sem skráð er í þjóðkirkjunni með tilliti til heildaríbúatölu, þ.e. mikið er um börn og unglinga. Það krefur hins vegar kirkjuna um mjög viðamikið starf og er reynt að koma sem mest til móts við það og er starfsemi Grafarvogssafnaðar mjög öflug. Við Grafarvogskirkju starfa nú tveir prestar, organisti og kirkjuvörður, auk annarra starfsmanna sem sinna í íhlaupum störfum tengdum þeirri starfsemi sem fram fer í kirkjunni.

Á aðalsafnaðarfundi Grafarvogssóknar sem haldinn var í Grafarvogskirkju sunnudaginn 15. sept. sl., var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða: ,,Fundurinn samþykkir að leitast verði við að koma upp kirkjuseli í Borgarholtshverfi. Vegna fjölda sóknarbarna verði sótt um annað aðstoðarprestsembætti. Með því að fjölga starfsmönnum er meiri möguleiki á að vinna að uppbyggingu safnaðarins fremur en að einbeita sér að fleiri kirkjubyggingum í sókninni. Grafarvogskirkja mun geta sinnt öllum þörfum safnaðarins þá og ef safnaðarheimili væri til staðar í Borgarholtshverfi. Með því að reisa slík sel væri hægt í framtíðinni að leggja enn meiri áherslu á starfið fremur en að reisa kirkjubyggingar.``

Afrit af þessari samþykkt hafa verið sendar biskupi, prófasti og héraðsnefnd.

Sóknarnefndin vill vekja athygli hv. allshn. Alþingis á að í lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands nr. 62 17. maí 1990, 3. gr. 1. mgr., er ráðherra heimilt að ráða prest til aðstoðar sóknarpresti í sóknum þar sem íbúafjöldi fer yfir 4.000. Og að þegar íbúafjöldi sókna er kominn yfir 8.000 skal sókninni að jafnaði skipt.

Í ljósi þessa er ljóst að Grafarvogssókn er komin yfir þessi mörk og ætti því í raun að vera tvær sóknir og hvor um sig með tvo presta. Þetta er ekki raunin og er í reynd alls ekki krafa sóknarnefndar eða sóknarbarna í Grafarvogi heldur er óskin sú sem fram kom í samþykkt aðalsafnaðarfundar frá því sl. haust að fá þriðja prestinn og síðan að byggja safnaðarheimili víðar í hverfinu en auka starfið og fullnýta þá kirkju sem nú er í byggingu.

Þessu máli er komið á framfæri við hv. allshn. í því augnamiði að óska eftir lagfæringu á fjölda þeirra prestsembætta sem ríkið ætlar að greiða og fram kemur í samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar sem fjallað er um í tengslum við frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Það er ósk sóknarnefndar Grafarvogssóknar að tölunni verði breytt úr 138 prestembættum í 139 embætti. Þetta er gert í ljósi þess, eins og áður hefur komið fram, að nú þegar átti að vera komið eitt embætti í Grafarvogi og efnt í annað í viðbót. Verður að líta svo á að við ákvörðun þessarar tölu, þ.e. 138, hafi þetta farið fram hjá þeim aðilum sem um málið fjölluðu.``

Íbúar í Grafarvogssókn eru nú komnir yfir 13.000 og allshn. lítur svo á að það sé afar mikilvægt að verða við þessum óskum. Ég vil benda á í þessu sambandi að hér er einungis um bráðabirgðaákvæði að ræða sem gildir til ársloka 1998 eða í um það bil eitt og hálft ár. Síðan mun kirkjuþing taka við mati á þessum málum í heild sinni um skipan prestakalla, samanber það frv. sem liggur fyrir hinu háa Alþingi um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem verður vonandi samþykkt hér fljótlega. Væntanlega verða fleiri prestar fluttir á höfuðborgarsvæðið ef þörf krefur og kirkjuþing metur það svo.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þessi sjónarmið koma hér skýrt fram og ítreka þá skoðun allshn. að hér sé um mikilvægt mál að ræða sem vonandi fær góðar viðtökur á hinu háa Alþingi.