Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:43:37 (6036)

1997-05-09 15:43:37# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:43]

Frsm. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu enginn sem mótmælir rétti hv. þm. til að leita eftir skýringum og upplýsingum um mál. En venjan er sú að fulltrúar í nefndum ræða málin í sínum þingflokkum. Þess vegna hefði ég haldið, hv. þm., að það hefði verið gert. Það er alltaf nokkuð sérstakt þegar nefnd flytur sjálf mál. Það er öðruvísi meðferð á málinu hér á hinu háa Alþingi. En það var skoðun allshn. að þetta væri samkomulagsmál og þessar breytingar lagðar til í samráði við dómsmrh. og ég veit ekki betur en að haft hafi verið samband við fulltrúa kirkjunnar í því sambandi. Það er alla vega ljóst, og ég vil ítreka það enn og aftur, að hér er um bráðabirgðarákvæði að ræða sem gildir einungis í stuttan tíma og síðan mun kirkjuþing taka að sér að móta reglur um þessi mál og meta þarfir sókna og flytja til prestaköll eftir þörf. Ég ítreka það einnig að fyrir þinginu liggur frv. um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar þar sem einmitt er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði kirkjunnar almennt í hennar málum. Vonandi verður það mál samþykkt hér fljótlega. Þá mun verða tekið á þessum málum jafnframt.