Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:45:19 (6037)

1997-05-09 15:45:19# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir leggur jafnan gott eitt til málanna. Og nú sýnist mér að hún hafi dottið niður á lausn sem gerir þetta þing í rauninni óþarft. Það er í rauninni nóg, samkvæmt því sem hún segir, að hafa bara fagnefndirnar starfandi og síðan getum við, sem ekki eigum sæti í hinum ýmsu nefndum, bara spurt okkar félaga í nefndunum. Við þurfum ekkert að ræða það hér eins og hv. þm. sagði. Hún hefði haldið að það væri nóg að menn bara spyrðu sína félaga í nefndunum. En vegna þess og einungis vegna þess að hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða þá ætla ég ekki að taka oftar til máls um þetta. En mér finnst ræða hv. þm. ... (Gripið fram í: Það er gaman að heyra í þér einu sinni enn. ) Ég tala hér, ég ítreka það, herra forseti, sem virkur leikmaður þrátt fyrir að það færist glott yfir ýmsa ókristilegri meðbræður mína í þessum sölum. En ég tel að sú stefna sem kemur fram í bréfinu frá sóknarnefndinni sé þess eðlis að það gefi fullt tilefni til þess að þingið velti fyrir sér hvort það eigi að leyfa svona, hvort það eigi að hleypa þessari þróun af stað.

Í bréfinu er rætt um það, og ég ætlast ekki til þess að hv. þm. þurfi neitt að svara því, að koma upp kirkjuseli annars staðar, fjarri kirkjunni, og síðan segir: ,,að byggja safnaðarheimili víða í sókninni``. Auðvitað er það eðlilegt að sóknarnefndin vilji bara stækka sóknina og hafa völdin sem mest. Það getur líka verið eðlilegt í sumum tilvikum að prestarnir vilji hafa sem stærstar sóknir ef þeir fá nógu mikið af aðstoðarprestum vegna þess að þá aukast völd þeirra. En þá kemur að okkur, á meðan tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins eru eins og þau eru í dag, að taka í taumana. Og ég segi það alveg hikstalaust að ég held að sú stefna sem birtist í þessu bréfi frá sóknarnefndinni sé mjög óheillavænleg. Ég held að það sé slæmt að svona mál renni bara hikstalítið í gegnum fagnefndir þingsins, í þessu tilviki allshn., án þess að einhverjir séu kvaddir til þess að skoða málið vegna þess að mér sýnist að þetta mál sé argasta þvæla.