Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:56:15 (6043)

1997-05-09 15:56:15# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:56]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta allshn. á þskj. 1003 um frv. til laga um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk marga gesti á sinn fund og umsagnir frá ýmsum aðilum.

Lög um fasteigna- og skipasölu eru að stofni til frá árinu 1938 þótt gildandi lög séu nr. 34/1986. Undanfarin ár hefur starfað á vegum dómsmrn. og Félags fasteignasala samstarfsnefnd til að fjalla um málefni og starfsemi stéttarinnar. Lauk starfi þeirrar nefndar með því að hún skilaði af sér tillögum sem flestar vörðuðu öryggi viðskiptamanna fasteignasala. Í framhaldi af því ákvað dómsmrn. að taka lögin til heildarendurskoðunar.

Meginbreytingar frv. á efni gildandi laga lúta að neytendavernd, svo sem hvað varðar aukið eftirlit með starfsemi fasteignasala og hert skilyrði fyrir að geta fengið löggildingu til fasteignasölu. Þá er gildissvið laganna víkkað þar sem þeim verður framvegis einnig ætlað að ná til sölu á fyrirtækjum og nokkrar frekari breytingar lagðar til.

Umfjöllun nefndarinnar beindist að stærstum hluta að tveimur þáttum, þ.e. starfsábyrgðartryggingum fasteignasala annars vegar og söluþóknun fasteignasala hins vegar. Minni hluti nefndarinnar óskaði eftir því við Samkeppnisstofnun að hún léti fara fram athugun á samkeppnisaðstæðum á fasteignamarkaðinum með tilliti til þess hvort réttlætanlegt væri að afnema ákvæði gildandi laga um 2% hámarksþóknun í fasteignaviðskiptum. Í svarbréfi Samkeppnisstofnunar frá 10. mars sl. kemst hún að þeirri niðurstöðu að rétt sé að afnema umrætt ákvæði eins og frv. gerir ráð fyrir. Í frv. er í 5. gr. gert ráð fyrir að fasteignasalar skuli hafa ábyrgðartryggingu gagnvart tjóni sem þeir valda viðskiptamönnum í störfum sínum, hvort sem tjónið stofnast af ásetningi eða gáleysi. Í umsögnum Félags fasteignasala og Lögmannafélags Íslands er bent á að umrætt ákvæði sé í andstöðu við meginsjónarmið í vátryggingarétti um að ekki sé hægt að tryggja sig fyrir eigin ásetningsbrotum. Í því sambandi er bent á að lögmenn eru aðeins skyldir til að tryggja sig gegn gáleysisbrotum. Skv. 2. mgr. 5. gr. er gert ráð fyrir að lögmenn, sem hafa með höndum fasteignasölu, teljist fullnægja tryggingarskyldu sinni með ábyrgðartryggingu lögmanna. Í ljósi þess ósamræmis sem slíkt hefði í för með sér leggur meiri hluti nefndarinnar til að ákvæðinu verði breytt þannig að tryggingarskylda fasteignasala nái aðeins til gáleysisbrota, en undir gáleysi fellur bæði einfalt og stórfellt gáleysi. Með þessari breytingu verður vátryggingarskylda fasteignasala í samræmi við vátryggingarskyldu endurskoðenda, en lög um endurskoðendur voru nýlega samþykkt á Alþingi. Það sama gildir einnig um sölumenn notaðra ökutækja.

Í bréfi sem allshn. barst frá nefnd sem skipuð hefur verið til að fjalla um hvort rétt væri að semja frv. til laga um rammalöggjöf um starfsábyrgðatryggingar segir m.a.:

,,Nefndin er sammála um að þegar í lögum er kveðið á um að starfsstétt skuli hafa starfsábyrgðartryggingu þá eigi að miða við að slíkar tryggingar séu til að bæta tjón sem hlutaðeigandi veldur af almennu gáleysi í starfi sínu. Tjón sem rakið verður til ásetnings eða stórfellds gáleysis skal undanskilið. Í vissum tilvikum hefur við setningu laga og reglugerða um einstakar starfsstéttir verið gengið lengra og m.a. krafist að trygging skuli einnig taka til tjóns sem valdið hefur verið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Svo víðtæk vátryggingarskylda er í engu samræmi við vátryggingarvenjur, enda má ætla að tjónstilvik af þessu tagi séu oftar en ekki refsiverð.``

Þá leggur meiri hlutinn til að kveðið verði á um lágmarksupphæð tryggingar vegna hvers einstaks tjónsatburðar og heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers tryggingartímabils í reglugerð, en ekki verði festar ákveðnar upphæðir í lögum. Ástæður breytingartillögunnar eru tvíþættar. Annars vegar þykir óhentugt að lögfesta ákveðnar upphæðir þannig að lagabreytingu þurfi til að breyta þeim. Hins vegar þykir nauðsynlegt að gæta samræmis milli tryggingarfjárhæðanna hjá fasteignasölum og lögmönnum, en hjá lögmönnum eru fjárhæðirnar ákveðnar í reglum sem staðfestar eru af ráðherra og gætir misræmis milli þeirra fjárhæða sem þar er að finna og fjárhæðanna í frv. Telur meiri hlutinn eðlilegt að samræmis varðandi vátryggingarfjárhæðir sé gætt milli stétta.

Einnig leggur meiri hlutinn til breytingar á 1. og 3. mgr. 1. gr., sem miða að því að ákvæðin verði skýrari hvað varðar sölu á fyrirtækjum. Þannig er lagt til að orðunum ,,í atvinnuskyni`` verði bætt inn í frumvarpstextann til að taka af öll tvímæli og einnig er lagt til að ákvæðið nái ekki einungis til fyrirtækja sem stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi, heldur verði miðað við öll atvinnufyrirtæki eða eignarhluta í þeim, önnur en hlutafélög.

Þá leggur meiri hlutinn til að gerð verði breyting á 2. gr. þannig að eitt af skilyrðum þess að maður geti fengið löggildingu sem fasteignasali verði að hann hafi haft forræði á búi sínu í tíu ár í stað tveggja ára eins og gert er ráð fyrir í frv. Í núgildandi lögum um málflytjendur er miðað við tvö ár eins og í frv., en þrátt fyrir það þykir meiri hlutanum ástæða til að leggja til framangreinda breytingu. Er ljóst að kröfur að þessu leyti verða hertar er lög um lögmenn verða endurskoðuð og er lenging þessa tímabils í samræmi við almenna þróun laga hérlendis, samanber ný lög um endurskoðendur og lög um sölu notaðra ökutækja. Þó vill meiri hlutinn benda á að nokkurt misræmi er milli stétta í þessu sambandi og hvetur hann til þess að tekið verði heildstætt á þessu máli og reglur verði samræmdar sem fyrst.

Loks leggur meiri hlutinn til að gerðar verði breytingar á 12. gr. frv. sem miða að því að skýra frekar hvað skuli koma fram í söluyfirliti því er fasteignasala er skylt að semja þegar honum hefur verið falið að ganga frá kauptilboði og/eða kaupsamningi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til, virðulegi forseti, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið lýst og gerð er grein fyrir á þskj. 1004. Undir álit meiri hluta allshn. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Árni Ragnar Árnason, Jón Kristjánsson, Hjálmar Jónsson og Kristján Pálsson.