Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:41:43 (6046)

1997-05-09 16:41:43# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:41]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að flest sjónarmið hafi komið skýrt fram í umræðunni og ljóst er að meiri hluti nefndarinnar og minni hluti eru ósammála um einstök atriði en sammála um önnur.

Ég vil aðeins víkja að umræðu hv. þm. varðandi starfs\-ábyrgðartryggingarnar og benda á að Alþingi hefur lagt á það áherslu í löggjafarstörfum sínum á þessu þingi að starfs\-ábyrgðartryggingar einstakra stétta verði miðaðar við gáleysi en ekki ásetning. Þetta gáleysi sem hér er mælt fyrir um felur í sér bæði einfalt og stórfellt gáleysi, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt í þessu sambandi. Meiri hluti allshn. er sammála þeirri löggjafarstefnu sem m.a. hefur verið mótuð af hv. efh.- og viðskn., t.d. í lögum um endurskoðendur og sölumenn notaðra ökutækja.

Við teljum einnig að það sé andstætt meginreglum skaðabótaréttar að hafa svo víðtæka vátryggingarskyldu og leggja svo ríkar skyldur á eina stétt. Þar að auki vil ég benda á og ítreka að nefnd sem hefur verið skipuð og er starfandi er ætlað að skoða þessi mál og leggja fram tillögur væntanlega í frumvarpsformi um samræmingu starfsábyrgðartrygginga milli starfsstétta og væntanlega kæmi það frv. fyrir þingið í haust.