Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:43:50 (6047)

1997-05-09 16:43:50# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:43]

Frsm. minni hluta allshn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér kemur ekkert á óvart að formaður allshn. reyni að verja það að meiri hlutinn er að taka út það sem lengi hefur tíðkast í fasteignaviðskiptum og hjá fasteignasölum að starfs\-ábyrgðartrygging feli í sér að bæta líka ef um er að ræða ásetningsbrot vegna þess að þetta er náttúrlega mjög stórt atriði sem meiri hlutinn er að leggja til og bera ábyrgð á, að ásetningsbrot séu tekin út úr fasteignaviðskiptum. Ég tel hv. formanni nefndarinnar eða meiri hlutanum ekki vera það til málsbóta þó að vísað sé til þess að þetta hafi verið almennt í meðförum annarra nefnda þar sem um er að ræða starfsábyrgðartryggingu hinna ýmsu stétta, að þar séu ásetningsbrot undanskilin. Við erum að fjalla um fasteignaviðskipti og í fasteignaviðskiptum einkum og sér í lagi er verið að fjalla um aleigu fólks, lífstíðarsparnað þess sem þarna er settur í hendur á fasteignasölum þannig að jafnvel þó að sú eina stétt, fasteignasalar, hefði þessa kvöð að hafa ásetningsbrot, þá tel ég miðað við þau viðskipti og þjónustu sem fasteignasalar hafa með höndum að það réttlæti að hafa slíkt inni. Ég veit ekki til þess að mikið hafi verið kvartað yfir því að þetta hafi verið inni í ábyrgðartryggingu fasteignasalanna. Um töluvert langan tíma, herra forseti, hefur þetta verið í ábyrgðartryggingum fasteignasalans að þeir bæru ábyrgð og ábyrgðartrygging þeirra fæli það í sér ef þeir yllu eða væru með ásetningsbrot. Þetta er mjög mikil neytendavernd í slíkum viðskiptum sem fasteignaviðskipti eru. Formaður hv. allshn. hafði greinilega smásamvisku yfir því að vera að minnka þá neytendavernd sem er til staðar sem hæstv. dómsmrh. lagði til að yrði vitaskuld áfram í lögunum. Við í minni hlutunum styðjum hæstv. dómsmrh. í því og erum honum sammála að mikilvægt sé að hafa inni ábyrgðartryggingu fasteignasalans, tryggingu fyrir ásetningsbrotum.

Það hefur komið til, líka hjá lögmönnum, að þeir hafa þurft að sæta ábyrgð vegna stórkostlegs gáleysis. Það kom einmitt fram í störfum nefndarinnar að sjóður lögmanna sem hefur bætt slík brot --- okkur skildist að hann væri tómur af því að til hefðu þurft að koma bætur vegna slíkra brota. Þess vegna viljum við í minni hlutanum gera allt til að styðja hæstv. dómsmrh. í því að meiri hlutinn verði ekki að vilja sínum í þingsölum við atkvæðagreiðsluna að þetta mikilvæga ákvæði, þessi mikilvæga tryggingavernd fólks í fasteignaviðskiptum, sem er með aleigu sína undir, falli ekki brott. Við viljum reyndar gera betur, herra forseti, eins og fram hefur komið, að lögmenn sem eru líka í fasteignaviðskiptum undirgangist slíka ábyrgðartryggingu þar sem innifalin eru ásetningsbrot. Við tökum undir með þeirri stofnun sem ætti best að hafa vit á þessu, sem er Vátryggingaeftirlitið. Nei. Meiri hlutinn gerir líklega eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði. Hann samræmir þetta niður á við til lögmannanna sem eru í fasteignasölu, sem hafa ekki þurft að hafa slíka ábyrgðartryggingu, þó svo Vátryggingaeftirlitið, eins og fram kom í umsögn þeirra, hefur skilið lögin um málflytjendur frá 1996 svo að ásetningsbrot væru þar líka innifalin en um það hefur verið deilt meðal lögmanna.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að rök meiri hlutans eru mjög veik, virðulegi forseti, þó ekki sé meira sagt. Í fyrsta lagi að vitna til þess að taka út ásetningsbrot hjá fasteignasölum af því að það er ekki hjá lögmönnum sem stunda fasteignasölu og í annan stað eru rökin þau að þar sem nefndir í þinginu eins og efh.- og viðskn. hafa verið að fjalla um bílasala og ábyrgðartryggingu þeirra og endurskoðendur, og þeir þurfi ekki að sæta því að trygging þeirra feli í sér ásetningsbrot, þá sé réttlætanlegt að fella það út hjá fasteignasölum.

Við erum, virðulegi forseti, og það skulu vera mín lokaorð, að fjalla um mjög sérstaka þjónustu sem fasteignaviðskipti eru þar sem fasteignasalar eru að fara höndum um aleigu fólks og þar eigum við að hafa eins fullkomna tryggingu og kostur er á svo aldrei komi til þess að blásaklaust fólk sem er í fasteignaviðskiptum þurfi að lenda í klónum á fasteignasölum þannig að það geti misst aleigu sína. Þess vegna harma ég það, ef þetta verður niðurstaðan hjá hv. Alþingi að fallast á tillögu meiri hlutans í þessu efni sem ég tel fráleita og endurtek það að við í minni hlutanum munum styðja hæstv. dómsmrh. sem ég vona að hafi ekki breytt um skoðun eða geri það í atkvæðagreiðslunni þess efnis að þetta haldist áfram inni og verði einnig tekið upp hjá lögmönnum.