Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:58:45 (6051)

1997-05-09 16:58:45# 121. lþ. 120.14 fundur 487. mál: #A umferðarlög# (ölvunarakstur, vátryggingarfjárhæðir o.fl.) frv., Frsm. minni hluta JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:58]

Frsm. minni hluta allshn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. þetta sem allshn. hefur haft til umfjöllunar um breytingar á umferðarlögunum felur í sér mjög mikilvæg ákvæði, en það sem ég vil sérstaklega gera að umræðuefni hér eru ákvæði 7. og 8. gr. þessa frv. sem eru mjög mikilvæg og lengi hefur verið beðið eftir. Um þessi ákvæði í frv. hæstv. dómsmrh. segir svo í greinargerðinni:

,,Lagt er til að vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja skv. 2. mgr. 91. gr. verði hækkaðar umfram þá heimild sem leiðir af verðlagsbreytingum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þetta þykir rétt með hliðsjón af hækkun bóta í kjölfar nýrra skaðabótalaga og eftirfarandi hækkun margföldunarstuðuls þeirra laga og að öðru leyti til að tryggja að vátryggingarfjárhæðir hrökkvi nú, ekki síður en þegar grunntölur vátryggingarfjárhæðanna voru lögfestar 1987, til að greiða bætur í alvarlegum umferðarslysum.``

Um 8. gr. segir:

,,Með skaðabótalögum hafa hæstu bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkað verulega þannig að vátryggingarfjárhæð skv. 1. mgr. 92. gr. hrekkur ekki til greiðslu hæstu bóta. Þykir nauðsynlegt að vátryggingarfjárhæð slysatryggingarinnar sé það há að hún nægi almennt fyrir bótum sem leiða af tjóni.``

Eins og fram kemur um þessa grein er hér um mjög mikilvæg ákvæði að ræða en það er að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum til samræmis við breytingar sem gerðar voru á skaðabótalögunum sem tóku gildi 1. júlí 1993. Því vekur það nokkra furðu að meiri hlutinn skuli standa að því, herra forseti, að leggja til að fella brott þessi mikilvægu ákvæði í frv. hæstv. dómsmrh. Líkt og í síðasta málinu sem við ræddum hér, um fasteignaviðskipti, þar sem meiri hlutinn er að gera margar breytingar sem svo sannarlega eru ekki til bóta á því frv., þá mun minni hlutinn styðja hæstv. dómsmrh. eins og í málinu áður fyrir því að þessar greinar verði ekki felldar brott eins og meiri hlutinn leggur til þannig að hæstv. dómsmrh. finnur það nú í hverju málinu á fætur öðru að hann á ekki stuðning hjá meiri hlutanum heldur er það fyrst og fremst minni hlutinn sem hann sækir stuðning til í svo mikilvægum ákvæðum sem hér um ræðir. Minni hlutinn leggst því gegn þeim tillögum meiri hlutans að fella brott þessi ákvæði 7. og 8. gr. sem fela í sér hækkanir á vátryggingarfjárhæðum umferðarlaga til samræmis við breytingar á ákvæðum skaðabótalaganna. Skaðabótalögin hafa margoft komið hér til umræðu og þær miklu réttarbætur sem fólust í þeim lögum, en eins og fram kemur í greinargerð með frv. voru bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkaðar verulega með skaðabótalögunum.

Vátryggingarfjárhæð vegna slysatryggingar ökumanns er nú 20 millj. kr. en í frv. er lagt til að fjárhæðin hækki í 60 millj. kr. Vegna líkamstjóns eða missis framfæranda eru vátryggingarfjárhæðir ábyrgðartrygginga nú 495 millj. en í frv. er lagt til að fjárhæðin hækki í 800 millj. Hér er í báðum tilvikum um að ræða hækkanir í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Hæstv. ráðherra er auðvitað að gera sína skyldu að leggja til við hv. Alþingi breytingar á umferðarlögunum í samræmi við þau lög sem Alþingi samþykkti, þ.e. um skaðabótalögin. Þetta ákvæði hefði auðvitað þurft að koma miklu fyrr til Alþingis, þessar breytingar á umferðarlögunum og vátryggingarfjárhæðum þeirra til samræmis við skaðabótalögin. Ég fagna því að þau skuli loksins sjá dagsins ljós í þinginu.

Í greinargerð frv. kemur einmitt fram að ekki er talið að þessar breytingar á vátryggingarfjárhæðum ökutrygginga einar sér hafi teljandi áhrif á iðgjöld fyrir vátryggingar þessar. Vátryggingaeftirlitið tekur undir þetta sjónarmið. Reyndar er það svo að Vátryggingaeftirlitið hefur ítrekað frá setningu skaðabótalaganna bent á nauðsyn þess að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum til samræmis við ákvæði skaðabótalaganna og strax í kjölfar samþykktar á skaðabótalögunum sendi eftirlitið bréf til dómsmrn. í febrúar 1994 þar sem bent var á nauðsyn þess að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum. Hefur Vátryggingaeftirlitið árlega frá því, svo mikilvægt er þetta mál, óskað eftir því við dómsmrn. að hækka vátryggingarfjárhæðirnar í umferðarlögunum til samræmis við ákvæði skaðabótalaga.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að án slíkra hækkana er ekki víst að í öllum tilvikum sé fullnægjandi vátryggingarfjárhæð fyrir hendi samkvæmt skaðabótalögunum vegna tjóna sem rekja má til ökutækja. Í alvarlegum umferðarslysum er því ekki nægjanleg vátryggingavernd fyrir hendi í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Ég tel það mikinn ábyrgðarhluta af Alþingi að draga það eins og meiri hlutinn leggur til að ákvæði umferðarlaganna, þ.e. vátryggingarfjárhæðirnar séu í samræmi við skaðabótalögin. Minni hlutinn vill ekki bera ábyrgð á því að hækkun á vátryggingarfjárhæðum bíði heildarendurskoðunar á XIII. kafla umferðarlaganna um fébætur og vátryggingu og telur rétt að fjárhæðirnar hækki nú þegar eins og hæstv. dómsmrh. leggur til þótt gildissvið bótareglna bíði heildarendurskoðunar. Það er vissulega rétt að heildarendurskoðun átti að fara fram en við litum svo á að þar væri fyrst og fremst verið að fjalla um gildissvið bótareglnanna og það væri alveg sjálfstæð ákvörðun sem þingið gæti tekið afstöðu til þótt ekki lægi fyrir heildarendurskoðun á gildissviði bótareglnanna að hækka fjárhæðirnar eins og fyrir löngu hefði átt að gera.

Í umfjöllun nefndarinnar ítrekaði fulltrúi Vátryggingaeftirlitsins að brýnt væri að hækka vátryggingarfjárhæðirnar og Vátryggingaeftirlitið leggst gegn því að breytingar á vátryggingarfjárhæðum verði frestað þar til heildarendurskoðun á XIII. kafla umferðarlaga liggur fyrir. Minni hlutinn mun því greiða atkvæði gegn því að fella brott 7. og 8. gr. frv. sem fjalla um hækkun vátryggingarfjárhæða í samræmi við skaðabótalög og með því styðja hæstv. dómsmrh. enn einu sinni í góðum málum sem hann leggur fyrir þingið og ákvæðum sem horfa til bóta, um leið og minni hlutinn furðar sig á því að meiri hluti nefndarinnar skuli leggjast gegn þessari tillögu og þessu ákvæði sem hæstv. dómsmrh. leggur til. En minni hlutinn mun greiða atkvæði með 1., 2. og 3. gr. sem fjalla um niðurstöðu mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér, að þær greinar verði að lögum. Minni hlutinn styður sömuleiðis ákvæði frv. um að settar verði almennar reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja í samráði við samtök fatlaðra og þau stjórnvöld sem fara með málefni fatlaðra. En minni hluti allshn. leggst alfarið gegn því, þegar við sjáum hér á Alþingi að það eigi að hækka vátryggingarfjárhæðir umferðarlaga í samræmi við ákvæði skaðabótalaga sem lengi hefur verið beðið eftir, að vísa því ákvæði frá eins og meiri hlutinn leggur til, leggja til að það verði fellt og látið bíða heildarendurskoðunar. Þetta er atriði sem löngu tímabært er orðið að samþykkja og það er ábyrgðarhluti að mati okkar í minni hlutanum að fresta þessu ákvæði eins og meiri hlutinn leggur til.