Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:08:42 (6052)

1997-05-09 17:08:42# 121. lþ. 120.14 fundur 487. mál: #A umferðarlög# (ölvunarakstur, vátryggingarfjárhæðir o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:08]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. sagði hér áðan að það væri ábyrgðarhluti að leggja til þessa frestun. Ég hlýt að vísa því á bug fyrir hönd meiri hluta allshn.

Það var upplýst í allshn. að það hefði aldrei reynt á þessi brot með þeim fjárhæðum sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Það kom líka mjög eindregið fram að það yrði að skoða þessi ákvæði umferðarlaganna og það væri mjög mikilvægt atriði. Þar er um að ræða talsverðar breytingar, t.d. varðandi ökumannstryggingar og réttarstöðu farþega sem á að bæta þannig að það er mjög mikilvægt að þetta sé skoðað.

Hins vegar get ég alveg tekið undir það með hv. þm. að þessir hlutir þurfa að vera í lagi og því er mjög mikilvægt eins og ég gat um í framsögu áðan að þessi endurskoðun fari strax af stað. Ég beini þeim tilmælum mínum til hæstv. dómsmrh. sem hér situr að það verði gert þannig að tillögur muni liggja fyrir þinginu strax í haust.

Vegna orða hv. þm. um Vátryggingaeftirlitið, þá hafði ég sem formaður nefndarinnar samband við þann fulltrúa þess sem mætti á fund nefndarinnar og skýrði frá niðurstöðum meiri hluta nefndarinnar í þessu máli. Hann tók undir þá skoðun að vissulega hefði verið heppilegra að samþykkja þessar tillögur strax en tók þó undir tillögu meiri hlutans um endurskoðun og sendi mér bréf í því sambandi sem ég vil fá að vitna hér til:

,,Eftirlitið telur að samþykkja hefði mátt fyrirliggjandi tillögur en leggja til að heildarendurskoðun fari fram á nefndum kafla umferðarlaga. Sem kunnugt er hefur eftirlitið tekið undir sjónarmið um endurskoðun á gildissviði slysatryggingar ökumanns (Forseti hringir.) í 92. gr. umferðarlaga`` o.s.frv. Síðan segir, virðulegi forseti: ,,Í ljósi frestunar á breytingu vátryggingarfjárhæðar styður eftirlitið tillögu þess efnis að endurskoðun fari fram á nefndum kafla umferðarlaga.``