Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:15:54 (6056)

1997-05-09 17:15:54# 121. lþ. 120.14 fundur 487. mál: #A umferðarlög# (ölvunarakstur, vátryggingarfjárhæðir o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að ég tek undir þann málflutning sem hv. 13. þm. Reykv. Jóhanna Sigurðardóttir flutti hér áðan. Ég held að það sé lakara að ekki skuli takast að ljúka afgreiðslu þessa máls í heild sinni þannig að refsiákvæðin eða sektarákvæðin fylgi með í pakkanum og skil satt best að segja ekki af hverju ekki er hægt að ganga frá því og af hverju þarf að vera að fella niður þessar greinar frv. sem lagt er til hér í brtt.

Að öðru leyti er það auðvitað svo, herra forseti, að þegar kemur að umferðaröryggi og spurningunni um að ... (Gripið fram í.) Ég hélt að það væri 487. mál, er það ekki rétt? Ég held að það sé enginn misskilningur á ferðinni í því að við séum í aðalatriðum að tala hér um sama þingmálið vona ég, en að öðru leyti ætla ég að segja, herra forseti, að það sem eiginlega ýtti líka við mér að fara í stólinn er það að fyrir þinginu liggur umferðaröryggisáætlun og skýrsla hæstv. dómsmrh. um það mál. Ég veit ekki til þess að það hafi komist til umræðu enn þá og er þó frá því gengið í samþykktum um það mál að það skuli tekið til umfjöllunar í upphafi þings hverju sinni, ef ég man rétt. Og ég hafði hugsað mér einmitt við það tækifæri, nær það kæmi, að fjalla þá svolítið um stöðuna í umferðaröryggismálum þar sem ýmislegt mætti og þyrfti að ræða. (Gripið fram í: Má ekki gera það bara líka núna?) Að sjálfsögðu er það vel við hæfi að taka að einhverju leyti á þeim málum hér í þessari umræðu um breytingar á umferðarlögum. Og af því að breytingin snýst ekki hvað síst um það að breyta tilhögun varðandi sönnun á ölvunarakstri er það auðvitað vel á sínum stað að taka það upp. Staðreyndin er auðvitað sú að fyrir utan kannski hraðakstur er ölvunarakstur eitt alvarlegasta vandamálið og mestur slysavaldur í umferðinni. Mörg alvarlegustu slysin tengjast ölvunarakstri og yfirleitt er það samdóma álit allra sérfræðinga á þessu sviði að einna mikilvægast til þess að stemma stigu við umferðarslysum sé að ráðast gegn þessu tvennu, þ.e. ölvunarakstrinum og hraðakstri sem auðvitað fer oft saman.

Frv. gengur út frá því að gera þá breytingu varðandi sönnun í þessum efnum að mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér skuli teljast jafngild eða fullnægjandi sönnun um ölvunarástand á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Nú ætla ég ekki að draga úr því að þetta sé rækilega og vel undirbyggt og ekki sé verið að skapa neina réttaróvissu eða valda réttaröryggisleysi með þessum breytingum enda er það mjög mikilvægt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Staðreyndin er reyndar sú að á köflum hefur þótt misbrestur á að nógu tryggilega væri farið með þessi mál hér hjá okkur, til að mynda meðferð sýna sem tekin hafa verið.

Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að menn þurfa að vanda mjög framkvæmdina ef farin er sú leið að láta lögreglumönnum eftir að framkvæma þessar mælingar á staðnum og það skuli teljast fullnægjandi lagasönnun.

Ég tel mig, herra forseti, ekki dómbæran um það eða treysti mér ekki til þess að vefengja að það sé tímabært að gera þessar breytingar hér. Mér er kunnugt um að þetta hefur verið gert a.m.k. á einhverjum hinna Norðurlandanna og telst orðið jafngilt blóðsýnatöku og rannsóknum á þeim og við hljótum að ætla að við getum þá gert sams konar breytingar, en ég undirstrika það og vil leggja áherslu á að ég tel afar mikilvægt að framkvæmd þessara mála verði vönduð.

Að öðru leyti, herra forseti, vildi ég aftur inna eftir því hvenær stæði til að taka á dagskrá skýrslu hæstv. dómsmrh. til Alþingis um stöðu umferðaröryggismála og umferðaröryggisáætlun fyrir árin 1997--2001 í tengslum við hana. Mér finnst miklu máli skipta að það sé ljóst að það gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál einhvern tíma á síðustu dögum þingsins og áður en þingið lýkur störfum þannig að ef hæstv. forseti gæti eitthvað upplýst um þetta, þá væri ég feginn að heyra af því.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur því miður engar handbærar upplýsingar um það mál sem hv. þm. leitar upplýsingar um, getur engu um það svarað, því miður.)