Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:33:21 (6062)

1997-05-09 17:33:21# 121. lþ. 120.15 fundur 61. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar fyrir hjólreiðar) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:33]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem hæstv. forseti hefur veitt í málinu. Ég vil hins vegar ítreka fyrirspurn mína um það sem ég gat um að einn af þingflokkunum hefur boðað til fundar á þingtíma. Ég vil gjarnan fá að vita hvaða afstöðu forseti hefur og hvort hann ætli virkilega að láta umræðu halda áfram við slíkar aðstæður. Eins og ég benti á er þetta í annað skiptið í þessari viku. Í hitt skiptið var það ráðherra en í þetta skipti skilst mér að það sé þingflokkur sem þetta gerir. Ég vil gjarnan fá, hæstv. forseti, afstöðu gagnvart þessu máli. Mér finnst þetta ekki vera góð vinnubrögð þótt ég skilji fullkomlega að hæstv. forseti er að reyna að halda störfum þingsins áfram, og ekki er ég á móti því, en hér er verið að ræða mikilvæg stjórnarfrumvörp og þá er það lítilsvirðing bæði við þing og okkar stjórnarandstæðinga að skipulagðir séu mikilvægir fundir á sama tíma. Það er ekki hægt að búa við slíkar aðstæður. Og ég vil fá svör frá hæstv. forseta varðandi það efni --- hvort hann hyggst grípa á málinu eða taka kannski á einhvern annan hátt á þeirri umræðu sem hér er í gangi.