Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:35:32 (6064)

1997-05-09 17:35:32# 121. lþ. 120.15 fundur 61. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar fyrir hjólreiðar) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:35]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þær fyrirspurnir sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni. Mér var að vísu líkt farið og hæstv. forseta, mér var ekki kunnugt um að einn stjórnmálaflokkanna sem hér eiga fulltrúa á þinginu væri að halda fund úti á landi. Ef það er rétt, þá finnst mér alls ekki koma til greina að halda þessum þingfundi áfram. Það er aldeilis fráleitt.

Hæstv. dómsmrh. sýndi þinginu þann dónaskap fyrr í vikunni að hann hélt ráðstefnu úti á landi og boðaði fjölda þingmanna, bæði sem ræðumenn og sem gesti sína, til að stýra fundinum. Það er auðvitað ekkert annað en rakinn dónaskapur gagnvart þinginu og ég get ekki fallist á að sá hinn sami stjórnmálaflokkur komi fram með þessum hætti jafnvel aftur og aftur í sömu vikunni.

Ég vil vekja eftirtekt á því að hæstv. forseti, Ólafur G. Einarsson, hefur ítrekað beint þeim tilmælum til nefndarformanna og þeirra sem aðild eiga að málum að þeir reyni að koma í veg fyrir að haldnir séu fundir sem þingmenn þurfa að sækja meðan þingið stendur yfir. Þetta hef ég sem formaður einnar fagnefndar reynt að hafa í heiðri og það sama gildir um aðra. Þess vegna gengur það auðvitað ekki ef það er svo að einn stjórnmálaflokkanna er núna í annað skiptið í þessari þingviku að beita sér fyrir því að fjöldi þingmanna er annars staðar á landinu og getur ekki sótt fundi þingsins. Það er aldeilis út í hött og það er ekki hægt að leyfa mönnum að komast upp með það. Hæstv. dómsmrh. heldur kannski að hann sé hafinn yfir venjulegar hefðir sem hér gilda en svo er ekki. Hvorki hann né hans flokkur eru það.