Staða þjóðkirkjunnar

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 18:17:43 (6073)

1997-05-09 18:17:43# 121. lþ. 120.9 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[18:17]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þennan misskilning, að ég bað um orðið út frá annarri fullyrðingu sem kom hér fram og það voru hugleiðingar um það hvort þessi lög væru óbreytanlegri en önnur. Ég lít að sjálfsögðu svo á að þessi lög eins og öll önnur eru breytanleg á þeim þingum þar sem alþingismenn Íslendinga sitja ef þeir hafa á því áhuga og á því vilja. Þeir hafa þennan rétt samkvæmt stjórnarskránni og ég vildi koma því á framfæri. Þetta var í hugleiðingum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var með, en mér fannst reyndar að það væri það sjálfgefið að þessi réttur væri til staðar að ekki þyrfti að undirstrika það.

Og út frá því að hugmyndin um óskerðanlegan höfuðstól væri grundvöllurinn að því að þetta væri óbreytanlegt, þá var það sem ég vildi útskýra það að ég teldi að stæðist ekki nokkra lögfræði í reynd.